Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jón Júlíus ráðinn framkvæmdastjóri UMFG
Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Jón Júlíus og Bjarni Már Svavarsson formaður UMFG skrifuðu undir starfsamning framkvæmdarstjóra.
Föstudagur 21. febrúar 2020 kl. 12:54

Jón Júlíus ráðinn framkvæmdastjóri UMFG

Jón Júlíus Karlsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Ungmennafélags Grindavíkur og var hann valinn úr hópi 17 umsækjenda. Jón Júlíus er 32 ára gamall og hefur síðustu þrjú ár starfað sem framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Aftureldingar í Mosfellsbæ. Hann kemur því með mikla reynslu í þetta nýja starf hjá Ungmennafélagi Grindavíkur.

Aðalstjórn og stjórnarmenn deilda UMFG binda miklar vonir við að ráðning Jón Júlíusar muni enn frekar styrkja og efla hið öfluga starf sem unnið er innan deilda Ungmennafélagsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég er mjög þakklátur fyrir þetta tækifæri og fer með mikilli tilhlökkun inn í nýtt starf hjá félaginu. Ég sem Grindvíkingur ber miklar taugar til UMFG og vona að ég geti hjálpað því frábæra fólki sem hefur unnið að íþróttamálum í Grindavík undanfarin ár,“ segir Jón Júlíus.

„Grindavík er íþróttabær og býr yfir einni bestu íþróttaaðstöðu á landinu. Það eru tækifæri til að gera enn betur og ég finn vel fyrir kraftinum og metnaðinum sem ríkir innan sveitarfélagsins til að vera í fremstu röð.“

Jón Júlíus er með BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla. Jón Júlíus er uppalinn í Grindavík en hefur síðustu 10 ár búið í Reykjavík. Jón Júlíus hyggst flytjast búferlum aftur til Grindavíkur þegar hann hefur störf hjá UMFG. Hann hefur áður starfað sem markaðsstjóri hjá Golfklúbbnum Oddi og einnig starfað í fjölmiðlum hjá RÚV, Stöð 2 og Víkurfréttum.

Jón Júlíus mun hefja störf þann 1. júní næstkomandi.