Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Jón Ingi Íslandsmeistari 40+ í snóker
Eineygða undrið úr Vogunum er styrktur til keppni af Undra. Ljósmynd: Gala Trigg
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 19. apríl 2021 kl. 11:33

Jón Ingi Íslandsmeistari 40+ í snóker

Vogamaðurinn Jón Ingi Ægisson varð Íslandsmeistari í snóker í flokki 40 ára og eldri um helgina. Þetta er í fjórða sinn sem hann verður Íslandsmeistari 40+.

„Þetta er mitt mót,“ sagði Jón Ingi hlægjandi í samtali við Víkurfréttir. „Ég er búinn að taka fimm sinnum þátt og hef bara tapað einum leik. Það var á móti Ásgeiri Guðbjartssyni í úrslitaleiknum í fyrra. Þannig að ég hef unnið fjögur mót af þeim fimm sem ég hef tekið þátt í.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jón Ingi er öflugur snókerspilari og hefur náð góðum árangri í greininni. Eins og fyrr segir hefur hann orðið fjórum sinnum Íslandsmeistari 40+ og einu sinni Íslandsmeistari í tvímenningi, þá með Ásgeiri Ásgeirssyni. Jón Ingi hefur tvisvar sinnum endað í öðru sæti í Íslandsmótinu í opnum flokki og í bæði skiptin tapaði hann fyrir Kristjáni Helgasyni sem er sennilega allra besti snókerspilari sem við Íslendingar höfum átt. Kristján og Jón Ingi sameinuðu krafta sína og náðu því merka afreki að verða Evrópumeistarar í tvímenningi 40+ árið 2017 í Albaníu. Það að auki hefur Jón unnið fjölmörg stigamót og opin mót á sínum ferli.

Jón Ingi og Kristján Helgason með verðlaunagripinn í Evrópumóti 40 ára og eldri árið 2017.

„Stakk hnífi í það“

Jón Ingi hefur það „fram yfir“ flesta aðra snókerspilara (ef svo má að orði komast) að hann er eineygður en hann missti ungur hægra augað í slysi. „Ég missti hægra augað þegar ég var sex ára.“

– Hvernig gerðist það?

„Ég stakk hnífi í það,“ svarar Jón snaggaralega. „Bara nett Bulls Eye, beint í miðjuna. Mamma og pabbi voru að skera af netum og ég var alltaf að fá að prófa eða fikta eitthvað. Svo stóð ég upp á stól og var að taka einhverja lykkju, togaði þetta etthvað að mér og beint í andlitið.“

Jón Ingi hlær og bætir við: „Það er ekki að skemma fyrir manni í sportinu – ég er ekki í einhverri sjónskekkju, það er bara þannig.“

Íslandsmótið í ár var leikið á snókerstofunum Snóker og pool í Lágmúla og á Billiardbarnum í Faxafeni. Leikið var eftir útsláttarfyrirkomulagi og sat Jón Ingi hjá í fyrstu umferð. Í annari til fjórðu umferð (sextán til fjögurra manna úrslitum) þurfti að vinna fjóra ramma en í úrslitaleiknum sigraði sá sem vann fimm ramma.

Í sextán manna úrslitum sigraði hann Skúla Magnússon nokkuð örugglega 4:2 en í átta manna úrslitum þurfti úrslitaramma í viðureign Jóns og Heiðars Heiðarssonar. Jón Ingi mætti svo Bjarna Jónssyni í undanúrslitum og sigraði þann leik 4:0.

Jón Ingi mætti að lokum Gunnari Hreiðarssyni í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn og þann leik sigraði Jón 5:1 og hampaði því titlinum að lokum.

Í spilaranum hér að neðan er hægt að horfa á úrslitaleikinn milli Jóns Inga og Gunnars Hreiðarssonar.