Jón Halldór: Þeir halda að þeir séu ennþá jafngóðir
B-lið Keflvíkinga mætir í Breiðholtið í kvöld þar sem liðið freistar þess að leggja úrvalsdeildarlið ÍR í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla. Liðið frá Bítlabænum er með marga af bestu leikmönnum í íslenskum körfubolta frá upphafi innanborðs, í bland við rulluspilara sem þykja of þungir fyrir A-liðið. Allt saman eru þetta þó hinir mestu keppnismenn sem ætla að selja sig dýrt í kvöld.
„Það er alltaf gaman að vera í kringum þessa vitleysinga. Það skemmtilegasta við það að umgangast þessa menn er að þeir halda að þeir séu ennþá jafngóðir og þeir voru upp á sitt besta,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflvíkinga í samtali við VF í dag. Hann segir að keppnisskapið sé þó sannarlega enn til staðar í gömlu kempunum. „Þeir eru alveg brjálaðir. Þegar maður vogar sér að kippa þeim út af þá horfa þeir á mann eins og maður sé genginn af göflunum, þeir vilja bara vera inná.“
Þjálfarinn segir að ungir íþróttamenn mættu taka sér þetta hugarfar til fyrirmyndar. „Ef ungu krakkarnir hugsuðu eins og þessir leikmenn, þá væri nú gaman að vera til. Ég vildi óska þess að hafa verið aðeins eldri en 10 ára þegar þessir gaurar voru upp á sitt besta og hafa fengið að þjálfa þá,“ bætir hann við.
Keflvíkingar ætla að mæta ákveðnir til leiks í kvöld og leggja sig fram gegn úrvalsdeildarliðinu ÍR. Mikil spenna ríkir í þeirra herbúðum „Við ætlum að keppa og hafa gaman af, um það snýst þetta.“ Töluvert hefur verið rætt um að Sjeikinn sem hefur verið viðloðinn liðið muni mæta til leiks og hugsanlega rífa upp veskið til þess að styrkja liðið. „Maður veit aldrei hvað hann gerir, en hann mun líklega mæta,“ sagði Jón og hló við um leið og hann lofaði gleði og hamingju í kappleik kvöldsins.