Jón Axel meðal þeirra efnilegustu í Evrópu
- að mati vefsíðunnar Sportondo.
Eftir glæsilega frammistöðu með U18 ára landsliði Íslands á Norðurlandamótinu í sumar, þar sem Jón Axel var valinn verðmætasti leikmaður mótsins og skoraði rúm 29 stig að meðaltali í leik, hafa erlendir fjölmiðlar veitt honum verðskuldaða athygli. Þetta kemur fram á vefsíðu Grindavíkurbæjar.
Á dögunum birti vefsíðan Sportondo umfjöllun um fimm ungar evrópskar stjörnur sem menn ættu að fylgjast með á næstu árum og var Jón Axel í þeim hópi. Umfjöllunin er meðfylgjandi, í lauslegri þýðingu mbl.is:
„Körfuboltalandslagið er að breytast og hann er sönnun þess. Guðmundsson er íslenskur og afar efnilegur. Hann spilar oft sem leikstjórnandi en einnig sem skotbakvörður, og seinni staðan er sennilega sú sem hann mun spila út ferilinn. Hann hefur hæðina - er 195 cm - og hæfileikana til þess að leysa þessa stöðu með framúrskarandi árangri.Varðandi sóknina þá getur hann sótt mjög vel á körfuna til að skora eða sækja villur en hann getur líka skotið frá þriggja stiga línunni. Skotin hans eru óstöðug en tæknin er góð og skotprósentan mun batna með tímanum. Hann hefur svo margt fram að færa á öllum hliðum leiksins. Hann er frábær í fráköstum, stoðsendingum og getur varist leikmönnum sem spila sem ás, tvistur eða þristur. Hann hefur allt sem þarf til að verða mjög athyglisverður leikmaður en hann þarf að fara að spila í betri deild en þeirri íslensku.“
Eins og aðdáendur Grindavíkurliðsins vita hefur Jón Axel, sem aðeins er 17 ára, spilað sífellt stærra hlutverk í okkar liði og reynst því ansi drjúgur þrátt fyrir ungan aldur. Hann og yngri bróðir hans, Ingvi Þór, munu eyða næsta vetri í Bandaríkjunum við nám og körfuboltaiðkun og munu án vafa snúa þaðan enn betri leikmenn og eflaust liggur leiðin hjá Jóni í atvinnumennskuna áður en langt um líður.