Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jón Axel klárar leiktímabilið á Ítalíu
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 26. janúar 2023 kl. 08:59

Jón Axel klárar leiktímabilið á Ítalíu

„Erum tveimur sigrum á eftir toppliðinu, stefnum klárlega á toppinn,“ segir körfuknattleiksmaðurinn Jón Axel Guðmundsson.

Jón Axel Guðmundsson, körfuknattleiksmaður frá Grindavík, framlengdi á dögunum samning sinn við ítalska liðið Victoria Libertas Pesaro og gildir samningurinn út leiktíðina. Jón Axel hafði gert stuttan samning við félagið síðasta haust, stuttu eftir að hann klæddist gulu Grindavíkurtreyjunni á nýjan leik, en nú er komið á hreint að hann mun klára tímabilið á Ítalíu.

Jón Axel var fyrst hugsaður sem liðsstyrkur í stuttan tíma en hvað breyttist?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Frammistaða mín var að hjálpa liðinu mikið, ég er öðruvísi leikmaður en sá sem ég kom í staðinn fyrir, hjálpa liðinu á mismunandi vegu sem sést kannski ekki endilega á skori eða þessum helstu tölfræðiþáttum en sést vel á +/- tölfræðinni. Það hefur gengið vel hjá liðinu, við erum í fjórða sæti, tveimur sigrum á eftir toppliðinu svo stefnan okkar er klárlega á toppinn. Við tökum samt bara einn leik fyrir í einu og erum núna að hugsa um hvernig við getum unnið Sassari í næsta leik.“

Jóni hefur gengið vel á tímabilinu og fór yfir styrkleika ítölsku deildarinnar.

„Spilamennska mín hefur yfir höfuð verið góð, upp og niður eins og gengur og gerist í körfuboltanum en maður getur alltaf barist og spilað vörn af fullum krafti, ég legg mig alltaf fram í þeim hluta. Þetta er mjög sterk deild en ég hef bara samanburð við Þýskaland. Ég held að ítalska deildin sé betri og ég er að spila með einu besta liðinu þar svo þetta er líklega það besta sem ég hef komist í. Ég lifi fyrir að spila körfubolta og það var frábært að hafa fengið þetta tækifæri eftir stutt stopp á Íslandi.“