Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

  • Jólamarkaður til styrktar Kolfinnu Rán og fjölskyldu
    Olga Færseth og Pálína Guðrún Bragadóttir ásamt börnum sínum fjórum.
  • Jólamarkaður til styrktar Kolfinnu Rán og fjölskyldu
    Bjarney Rut Jensdóttir.
Miðvikudagur 2. desember 2015 kl. 14:29

Jólamarkaður til styrktar Kolfinnu Rán og fjölskyldu

- Mömmuhópur lætur gott af sér leiða

Markaður til styrktar Kolfinnu Rán, tveggja ára stúlku og fjölskyldu hennar, verður haldinn í sal Framsóknarflokksins við Hafnargötu 62 í Reykjanesbæ um næstu helgi. Kolfinna Rán hefur greinst með krabbamein í annarri rasskinn og er búin að fara í sjö lyfjameðferðir af þeim 9 sem fyrirhugaðar eru. Þeirri síðustu lýkur á Þorláksmessu. Kolfinna Rán er dóttir Olgu Færseth og Pálínu Guðrúnar Bragadóttur. Saman eiga þær fjögur börn, 21 árs gamlan son, 4 ára dóttur, Kolfinnu Rán 2 ára og 4 mánaða dóttur. 

Í september síðastliðnum var gerð tilraun til að fjarlægja æxlið en til þess að sú aðgerð hefði heppnast hefðu allar skurðarbrúnir þurft að vera lausar við allar krabbameinsfrumur. Það varð því miður ekki raunin því að á einum stað voru frumur. Því mun geislameðferð bætast við eftir lyfjameðferðina og er fyrirhugað að geislameðferðin hefjist strax eftir áramót. Síðustu mánuðir hafa því verið erfiðir hjá fjölskyldunni. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Markaðurinn opnar á fimmtudag klukkan 15:00 en þá verður kózýkvöld í Reykjanesbæ og verslanir opnar lengur. Að markaðnum standa nokkrar mæður sem allar eignuðust barn árið 2014 og kynntust þegar þær voru saman í mömmuhóp. Þær héldu sams konar markað í fyrra og söfnuðu fyrir fjölskyldu á Suðurnesjum. „Okkur langar að halda markaðinn árlega og styrkja fjölskyldu frá Suðurnesjum sem þarf á því að halda hverju sinni. Það er ekkert sérstakt sem ræður því hvaða fjölskylda verður fyrir valinu, heldur er ákvörðun tekin í takt við þörfina að okkar mati, en eitt er þó sameiginlegt - að fjölskyldan er héðan að sunnan,“ segir Bjarney Rut Jensdóttir.

Hópurinn sem að markaðnum stendur kynntist eins og áður sagði þegar þær áttu allar von á barni árið 2014. Þær þekktust lítið áður en hópuðu sig saman á Facebook. „Úr varð svo þessi dásamlegi vinskapur,“ segir Bjarney Rut. Hún hvetur fyrirtæki og einstaklinga til að aðstoða við söfnunina og leggja inn á bankareikning sem stofnaður hefur verið. Á markaðnum verður ýmislegt á boðstólum, svo sem fatnaður á alla fjölskylduna, jólaskraut, leikföng, belti, skór, skart, veski og margt fleira. Heitt verður á könnunni og allir hjartanlega velkomnir. Allur ágóði rennur óskiptur til fjölskyldunnar og allir sem að markaðnum koma gefa vinnu sína. 

Opnunartímar á styrktarmarkaðnum

Fimmtudagur, 3. desember, 15 til 20 (lengur ef stemmning leyfir)

Föstudagur, 4. desember 15 til 20

Laugardagur, 5. desember 12 til 18

Sunnudagur, 6. desember 12 til 18

Einnig er hægt að styrkja fjölskylduna með þvi að leggja inn á reikning í nafni Kolfinnu Ránar, númer 0542-14-405025, kennitala 190113-2210.