Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jói þrefaldur Íslandsmeistari
Miðvikudagur 5. apríl 2006 kl. 17:14

Jói þrefaldur Íslandsmeistari

Jóhann Rúnar Kristjánsson varð þrefaldur Íslandsmeistari í borðtennis um síðustu helgi en þetta er fjórða árið í röð sem Jóhann vinnur alla titlana. Jóhann er í 23. sæti heimslistans í sitjandi flokki en var fyrir skemmstu í 32. sæti og er því á hraðri uppleið.

„Ég er rosalega sáttur við að vera kominn í gamla formið eftir spítalaleguna löngu og ef eitthvað er þá er ég sterkari bæði líkamlega og andlega,“ sagði Jóhann við Víkurfréttir. „Ég hef greinilega náð að hreinsa vel til í kollinum á mér inni á spítala, það var allavega nægur tími til að hugsa þar,“ sagði Jóhann léttur í bragði.

Jóhann varð Íslandsmeistari í opnum flokki, sitjandi flokki og tvíliðaleik en framundan er langt og strangt keppnisferðalag. „Næsta mót er í Slóveníu þann 10. maí en það er alþjóðlegt punktamót sem getur gefið 20 punkta.“ Þann 24. maí heldur Jóhann svo til Köln í Þýskalandi og þaðan til Slóvakíu þann 31. maí. „Það verður eitthvað lítið um sumarfrí en ég mun æfa hér heima eftir mótið í Slóvakíu því 16. ágúst er svo síðasta mótið fyrir HM,“ sagði Jóhann en Heimsmeistaramótið fer fram í Sviss þann 22 .september og hefur Jóhann þegar tryggt sér þátttökurétt á því móti. „Ég mun reyna að komast í topp 10 eða 12 á heimslistanum fyrir HM því þá gæti verið að ég yrði annar inn í einhvern riðilinn sem þýðir að ég myndi fá spilara í riðil með mér sem eru neðar en ég á heimslistanum, það er svona óskastaðan,“ sagði Jóhann að lokum.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024