Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jói á Hóli
Gullaldarlið Keflavíkur 1973 með Joe Hooley þjálfara og Hafsteini Guðmundssyni, formanni knattspyrnudeildarinnar, oft nefndur „guðfaðir“ knattspyrnunnar í Keflavík.
Mánudagur 25. desember 2017 kl. 07:00

Jói á Hóli

- Englendingurinn Joe Hooley, hinn skapheiti þjálfari Gullaldarliðs Keflavíkur árið 1973 mætti með nýjungar í knattspyrnuþjálfun sem virkuðu vel

Þegar Keflvíkingar ræða gullöld knattspyrnunnar í bítlabænum kemur nafn enska þjálfarans Joe Hooley oft upp í umræðunni. Hann tók við liðinu fyrir leiktíðina árið 1973 en Keflavík hafði þá verið topplið á Íslandi og orðið Íslandsmeistari þrívegis á árunum 1964 til 1971. Joe tók til óspilltra málanna og Keflavík varð yfirburðalið í deildinni þetta ár og vann Íslandsmeistaratitilinn í fjórða sinn. Endirinn á tímabilinu varð þó ekki í stíl við gang liðsins allt sumarið. Keflvíkingar hafa ekki orðið Íslandsmeistarar síðan. Jóhann Sigurbergsson, nefndarmaður í knattspyrnudeild Keflavíkur hafði upp á Hooley og tók viðtal við hann sem var birt í blaði knattspyrnudeildarinnar í sumar. Víkurfréttir fengu leyfi til að birta viðtalið.

Joe Hooley kom til Keflavíkur fyrir tímabilið 1973. Á ferli sínum sem leikmaður lék hann með nokkrum neðri deildar liðum í Englandi en þurfti að hætta knattspyrnuiðkun 28 ára vegna meiðsla. „Eftir að ferlinum lauk fór ég á nokkur námskeið og og ferðaðist vítt og breitt um England til að læra af öðrum þjálfurum. Ég lærði alltaf eitthvað af öllum sem ég hitti. Þó það væri bara eitthvað eitt þá gat ég nýtt mér það á mínum ferli,“ sagði Hooley um upphaf þjálfaraferils síns. Samkvæmt Tímaritinu Faxa frá því í febrúar þetta ár var það Allan Wade formaður enska þjálfarasambandsins sem átti stærstan þátt í því að hann kæmi til Íslands. Áður en Hooley kom til Íslands hafði hann þjálfað landslið Súdan á sumarólympíuleiknunum í Þýskalandi og verið þjálfari hjá Colchester í 4. deildinni á Englandi.

Sá strax hæfileika í Keflavík

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Enska knattspyrnusambandið bað mig um að taka að mér þjálfun landsliðs Súdan fyrir sumarólympíuleikana 1972. Það voru þó nokkur tengsl á milli knattspyrnusambands Súdan og Englands og þeir báðu enska knattspyrnusambandið um hjálp svo þeir myndu ekki verða að athlægi á ólympíuleikunum og sérstaklega var þeim umhugað um að ná að standa í lappirnar á móti Rússum þar sem samskipti þjóðanna voru slæm á þeim tíma. Rússneska liðið var fullt af mönnum sem í raun voru atvinnumenn en öll önnur lið á ólympíuleikunum voru eingöngu skipuð áhugamönnum. Ég tók við liðinu 6 vikum áður en mótið hófst og við töpuðum öllum leikjum en naumlega og ég tel að liðið hafi komist nokkuð vel frá mótinu miðað við efni og aðstæður,“ sagði Hooley.

En hvernig kom það til að hann kom til Íslands? „Enska knattspyrnusambandið lét mig vita af því að það væri lið á Íslandi sem vantaði þjálfara. Á Englandi voru bara 92 lið og því ekki um mjög marga kosti að ræða til að verða framkvæmdarstjóri hjá liði. Ég ákvað því að fara erlendis til að bæta í reynslubankann og gera mig að betri þjálfara. Þegar ég kom í heimsókn til Íslands sá ég strax að lið Keflavíkur á þessum tíma hafði burði til að verða mjög gott lið. Því ákvað ég að taka þessu tækifæri“.

Aðspurður um hvernig upplifun hans af Íslandi hefði verið þegar hann kom fyrst sagði Hooley:

„Veðrið á íslandi var öðruvísi en ég hafði gert ráð fyrir. Það var minni snjór en þetta var í fyrsta skipti á ævinni sem ég hafði séð lárétta rigningu. Það var oft ótrúlega vindasamt og furðulegar aðstæður til knattspyrnuiðkunar. En gæðin í leikmönnunum voru mjög góð og betri en ég hafði gert ráð fyrir“.
 

Þróaðri aðferðir en þekktust

Hooley var þekktur fyrir að vera mjög taktískur þjálfari og leggja mikið upp úr því að æfa föst leikatriði. Undir hans stjórn voru allar hreyfingar leikmanna inná vellinum æfðar fyrir leik og innköst og hornspyrnur sköpuðu fjölmörg mörk og hættuleg færi. „Eftir að hafa kynnt mér allt það sem var að gerast í þjálfun í Englandi og víðar hafði ég fastmótað hugmyndir um hvernig mætti ná árangri í fótbolta og þá þarf liðið að virka sem ein heild. Að mínu mati voru þjálfunaraðferðir mínar þróaðri heldur en flest allt annað sem var að gerast í fótboltanum á þessum tíma“. Á þeim tíma sem Hooley kom til landsins vissu allir að það væri mikill efniviður í liðinu en með komu Englendingsins tóku menn eftir stakkaskiptum á liðinu. Fyrir mótið 1973 voru allir fjölmiðlar vissir um að Keflavíkurliðið yrði meistari um sumarið.

Ekki voru allir sáttir við þá ákvörðun stjórnar Keflavíkur að fá erlendan þjálfara til liðsins og fannst það móðgun við íslenska knattspyrnu og íslenska þjálfara en álit manna breyttist fljótt eftir að Hooley hóf störf. „Íslenskir þjálfarar á þessum tíma voru margir hverjir frekar takmarkaðir. Eingangrun landsins var meiri á þessum tíma og því dýrt og erfitt fyrir þjálfara að sækja sér reynslu og þekkingu erlendis. Ég krafðist hundrað prósent einbeitingar af mínum leikmönnum og að þeir höguðu sér eins og atvinnumenn þar sem allir væru að vinna að sama takmarki. Tilfinning mín var sú að það væri ekki endilega þannig alls staðar. Góður árangur í föstum leikatriðum var að mörgu leyti því að þakka að við hugsuðum meira um þessa hluti en önnur lið. Fótbolti er ekki síður andleg íþrótt en líkamleg og leikmenn verða að sýna andlegan styrk á æfingum og leikjum til þess að ná árangri.

„Völlurinn er um 100 metrar á lengd og 50 á breidd. Það eru bara 11 leikmenn í hvoru liði og því er umtalsvert pláss sem þarf að vinna á í hverjum leik. Ég horfði þannig á að ef við pressum liðin ofarlega þá minnkum við plássið sem þeir hafa til að spila á. Ef við færum svo liðið skipulega á milli hlíðarlína þá minnkum við völlinn enn meira sem eykur líkurnar á því að við vinnum boltann á hættulegum stað. Ef við vinnum boltann inná vallarhelmingi andstæðinganna þá er mun auðveldara að setja upp hættulegar sóknir sem eykur líkurnar á að skora mörk. En til að svona leikaðferð gangi upp þarf liðið allt að vinna saman og menn þurfa að þekkja sín hlutverk.“

Tóku verkefnið alla leið

Áhrif Hooley á þá leikmenn sem voru að spila á þessum tíma voru mikil og einn fyrrum leikmaður sagði að hann hefði áttað sig á því að hann vissi ekki hvað fótbolti var fyrr en Hooley kom. Sjálfur sagði Hooley við leikmennina á sínum tíma að hann kynni ekki að þjálfa annað en atvinnumenn og því yrðu þeir að haga sér þannig ellegar gera eitthvað annað. „Leikmennirnir voru frábærir 1973. Þeir lögðu mikið á sig til að ná þeim árangri sem þeir náðu og sýndu það líka í sínu persónulega lífi að þeir væru til í að taka verkefnið alla leið. Ég var mjög ánægður með viðhorfið hjá þeim“.

En hvaða leikmenn standa upp úr nú 44 árum eftir að hann var með liðið?
„Hryggjasúlan í liðinu var mjög sterk. Þorsteinn markvörður var yfirburðamarkvörður á þessum tíma og gat náð eins langt og hann vildi. Miðverðirnir voru sterkir og Steinar (Jóhannsson) í fremstu víglínu skoraði að vild. Þetta er leikmaður sem lið í dag eru að borga 100 milljónir punda fyrir þó hann gerði ekkert nema að skora mörk. Hann hafði náttúrulegt markanef. Hann var alltaf mættur á rétta staði, eins og hann finndi á sér hvert boltinn kæmi. Svo kláraði hann þau færi sem hann fékk, það sem við köllum í Englandi „Johnny on the Spot“. Besti leikmaðurinn var þó líklega Guðni Kjartansson. Hann var alger fyrirmyndar leikmaður og hagaði sér eins og atvinnumaður og hafði mjög góða fótboltahugsun. Hann skildi leikinn betur en flestir. En allt liðið var frábært, það var mikil eining í þeim og liðsheildin til fyrirmyndar. Það voru sjö leikmenn liðsins í íslenska landsliðinu á þessum tíma sem sýnir gæðin. Hooley mundi ekki öll nöfnin á leikmönnunum en þessi tími er honum þó augljóslega ennþá í fersku minni.

Rauk heim í fýlu

Í lokaleik mótsins 1973 mætti Keflavík liði Breiðbliks. Leikurinn endaði 4-4 og var Hooley mjög ósáttur við þá niðurstöðu. „Að fá á sig fjögur mörk í leik er bara ekki ásættanlegt. Ég var mjög óánægður með strákana í þessum leik“. Að öðru leiti vildi hann ekki tjá sig um leikinn þegar hann var spurður um hann. Keflavíkurliðið skoraði 68 mörk í öllum keppnum 1973 og fékk eingöngu á sig 11. Þessi 4 mörk á móti Breiðablik sátu því greinilega í Hooley sem eftir leik rauk í burtu af vellinum og þaðan heim til sín. Þegar leikmennirnir fóru heim til hans til að reyna að sannfæra hann um að koma á lokahófið sem haldið var í boðið bæjarstjórans um kvöldið sagði konan hans að það þýddi ekkert að reyna að ræða við hann. Þetta sýnir ágætlega það mikla keppnisskap sem Hooley bjó yfir en gefur líka ágæta mynd af þeim skapgerðarbrestum sem fylgdu.  
 

Hooley var í raun ennþá ósáttur við liðið þegar kom að lokaleikjum tímabilsins sem voru Evrópuleikir gegn Hibernian. Hann fór á undan liðinu til Englands og að sögn var hann ennþá hálf fúll og þurr á manninn þegar hann kom til móts við liðið. Það varð því úr að hann kæmi ekki með liðinu til Íslands í seinni leikinn. Samkvæmt fréttum á þessum tíma gerði hann munnnlegt samkomulag við KR inga um að taka við liði þeirra fyrir tímabilið 1974. Það gekk þó ekki eftir og hann tók við þjálfun Molde í Noregi og fannst mörgum KR ingum þeir illa sviknir af því. Hann endist þó ekki lengi hjá Molde og hætti á miðju tímabili. Fyrir tímabilið 1975 tók hann aftur við stjórn Keflavíkur enda höfðu leikmenn margir sagt að þeir söknuðu agans og fyrirkomulagsins sem Hooley hafði unnið eftir. Hlutirnir gengu þó ekki eins fyrir sig seinna skiptið sem hann tók við Keflavík og hann hætti með liðið fljótlega. „Það var meiri afskiptasemi af liðinu frá stjórnendum þegar ég kom til baka og það sætti ég mig ekki við. Stemningin í kringum liðið var önnur en hún hafði verið 1973. Ég horfi þannig á fótbolta að menn eigi alltaf að stefna að því að vera bestir. Ef þú vilt ekki vera bestur, hvers vegna ertu þá að þessu?“ Hooley hafði líka orð á því að hann hefði ekki fengið krónu borgaða og það hefði verið ástæða þess að hann hætti 1975 en erfitt er að fá það staðfest nú 44 árum seinna og forsvarsmenn Keflavíkur höfnuðu þessum ásökunum í fjölmiðlum á sínum tíma. Óháð því má augljóslega greina það á öllum sem tala um Hooley í dag að hann hafði mikil og jákvæð áhrif á knattspyrnuna í Keflavík þegar hann kom og staðreyndin situr eftir að hann er síðasti þjálfarinn sem gerði liðið að Íslandsmeisturum.

Hooley þjálfaði hjá Lilleström í Noregi undir lok áttunda áratugarins og gerði þá tvisvar að meisturum en hætti á þriðja tímabilinu sínu vegna ósættis við stjórn. Síðasta lið sem hann þjálfaði var Skeid í Noregi en þegar hann hætti þar 1986 hætti hann afskiptum af þjálfun fyrir fullt og allt. Hooley býr núna í Barnsley í Englandi og virkaði ótrúlega hress í samtölum miðað við 79 ára gamlan mann. Hann hefur fylgst með íslenska landsliðinu í fótbolta með miklum áhuga síðustu ár og er afskaplega hrifinn af því sem er að gerast hjá liðinu um þessar mundir.

Úrklippa úr dagblaðinu Vísi með frásögn og mynd frá komu Hooley til Keflavíkur. Leikmenn og Hafsteinn Guðmunds tóku á móti þeim enska í flugstöðinni.
 

Hooley leiðbeinir Ólafi Júlíussyni fyrir Evrópuleikinn í Edinborg í Skotlandi. Karl Hermansson fylgist með.

Hápunkturinn á ferlinum

-segir Þorsteinn Ólafsson, markvörður Keflvíkinga um árið með Hooley

„Hooley hafði yfirburðaþekkingu á knattspyrnu og nýtti sér það til fullnustu þegar hann þjálfaði Keflavíkurliðið. Hann var magnaður persónuleiki og mjög ákveðinn,“ segir Þorsteinn Ólafsson, aðal markvörður Keflavíkurliðsins á gullaldarárum þess.
Þorsteinn varð fastamaður í Keflavíkurmarkinu þegar liðið varð Íslandsmeistari í annað skiptið, árið 1969. Hólmbert Friðjónsson, þjálfari var ekki alveg sáttur með gang mála í markinu hjá liðinu í byrjun tímabils og gerði Þorstein að aðal markverði en hann var þá aðeins 18 ára gamall. Þorsteinn segir að þetta ár þegar Joe Hooley þjálfaði Keflavíkurliðið sé líklega eftirminnilegasta árið hans í knattspyrnunni. „Hann kom með nýja nálgun á knattspyrnuna, var mjög einbeittur og kenndi okkur mjög margt nýtt. Hluti sem þekktust ekki í íslenskri knattspyrnu,“ segir Steini þegar hann er beðinn um að rifja upp tímann með enska þjálfaranum.

Skipulag og föst leikatriði skilu árangri
Hooley var ekki heldur með neina aukvisa í höndunum heldur lið sem hafði verið í topbaráttunni meira og minna í áratug og orðið Íslandsmeistari í þrígang á níu árum. Skipulag, agi og miklar æfingar var það sem Keflvíkingar fengu frá þeim enska. „Hann skipulagði allan okkar leik, sérstaklega í vörn og föstum leikatriðum. Það vissu allir hvar þeir áttu að vera og hvað þeir áttu að gera. Árangurinn skilaði sér mjög fljótt. Við vorum með gríðar sterka vörn og við skoruðum flest mörkin okkar eftir hornspyrnur eða aukaspyrnur. Ólafur Júlíusson tók nær allar spyrnur og þótti vera með nákvæmnina og spyrnugetuna enda nákvæmur málari,“ segir Þorsteinn og hlær og bætir við: „Hann þjálfaði okkur eins og við værum atvinnumenn, bætti við æfingum og tók ekki tillit til þess hvort það voru hátíðisdagar eða frídagar eða hvort við þyrftum að stunda vinnu eða nám. Við tókum því eins og karlmenn og árangurinn lét ekki  á sér standa.“

Strunsaði heim í fýlu
Þorsteinn segir að Hooley hafi kennt sér mikið í markvörslu. „Mér fór mikið fram hjá honum. Hann kom með nýjungar í markvörslu eins og svo mörgu fleiru. Hann tók aukaæfingar með mér og kenndi mér mikið. Ég man t.d. að hann vildi að ég stæði ekki á marklínunni í hornspyrnum eins og tíðkaðist, heldur vildi að ég færi nokkur skref út í teig. Þannig gæti ég bæði hlaupið inn í markið ef boltinn kæmi þangað en hefði einnig betri möguleika á að grípa boltann lengra úti í teig.
Þetta ár var magnað en endirinn var ekki nógu skemmtilegur. Við gerðum 4-4 jafntefli við Breiðablik, neðsta liðið í deildinni, í lokaleiknum í Keflavík. Við fengum jafn mörg mörk á okkur eins og allt tímabilið. Þetta var bara einbeitingarleysi hjá okkur því við vorum löngu búnir að vinna mótið. Kallinn varð brjálaður og strunsaði heim, var ekki viðstaddur verðlaunaafhendinguna og tók ekki þátt í meistarafagnaðinum um kvöldið. En þetta var frábær tími og hápunktur á mínum ferli og hjá Keflavíkurliðinu. Við unnum alla leiki og mót ársins nema bikarkeppnina en þar töpuðum við í framlengdum úrslitaleik á Laugardalsvelli og Framarar skoruðu sigurmarkið þegar komið var fram í myrkur. “


Hooley besti þjálfarinn

-segir Jón Ólafur Jónsson, sóknarmaður í Keflavíkurliðinu en hann vann allta Íslandsmeistaratitla með liðinu og var einnig í bikarmeistaraliðinu 1975

„Hooley er besti þjálfari sem ég hafði á ferlinum. Það er engum blöðum um það að fletta. Kallinn var stórkostlegur og kenndi okkur mikið í fótbolta,“ segir Jón Ólafur Jónsson, einn Gullaldarleikmanna Keflavíkur. Jón Ólafur var sókndjarfur í Keflavíkurliðinu og lék lengst allra á gullöld Keflavíkur. Hann var í öllum Íslandsmeistaraliðum Keflavíkur frá 1964 til 1973 og svo var hann í bikarmeistaraliðinu 1975. Jón Óli lauk ferlinum sem „afi“ í boltanum árið 1977 en þá var hann orðinn 37 ára. Hann segir að koma Englendingsins Hooley hafi verið gæfuspor fyrir Keflvíkinga.
„Maðurinn var ótrúlega einbeittur, hann var bara einn fótbolti. Hann var jú skapmaður og rauk í fússi eftir 4-4 jafntefli á móti Breiðabliki sem var fallið úr deildinni, í síðasta leiknum okkar þetta magnaða ár 1973. En hann vissi sínu viti. Við töpuðum bara einum leik allt tímabilið og það var úrslitaleikurinn gegn Fram í bikarkeppninni. Hooley var ekki svo ósáttur eftir þann leik þó hann hafi ekki verið ánægður að tapa. Hann sagði að við hefðum lagt okkur fram en Framarar hefðu bara leikið betur í þessum leik sem endaði í myrkri. Hann var mjög óánægður með frammistöðu okkar gegn Blikum og sagði að við hefðum sýnt knattspyrnunni lítilsvirðingu með kæruleysi og frammistöðu okkar. Það má taka undir það að við vorum ekki með einbeitinguna í lagi en hluti af þeirri ástæðu kann að vera sú að við vorum búnir að vinna mótið án þess að tapa leik og Blikar voru í neðsta sæti og fallnir. Hann gat ekki sætt sig við það og rauk þess vegna í burtu. Það var upphafið að endalokum þjálfunar hans hjá okkur,“ segir Jón Óli þegar hann rifjar þetta upp fyrir blaðamanni Víkurfrétta en bætir svo við: „Það er alltaf talað um Joe Hooley þegar minnst er á gullöld knattspyrnunnar í Keflavík. Við vorum allir leikmennirnir sammála því að við hefðum aldrei haft annan eins þjálfara á ferlinum.“

Steinar Jóhannsson var markahrellir í gullaldarliði Keflavíkur. Hér er hann með Jóhanni syni sínum í félagsheimili Keflavíkur eftir útgáfu Keflavíkurblaðsins sl. sumar þar sem viðtalið við Hooley birtist fyrst.

Jói hafði upp á Jóa

Jóhann Sigurbergsson, nefndarmaður í knattspyrnudeild Keflavíkur fann þjálfarann sem alltaf er talað um í tengslum við gullaldartímann í Keflavík. Segir hér frá því hvernig hann hafði upp á hinum 79 ára Englendingi sem þjálfaði Keflvíkinga 1973

„Þegar ég myndina af síðasta Íslandsmeistaraliði Keflavíkur uppi á vegg og fór að leita mér upplýsinga um það á vefnum. Þá sá ég að Joe Hooley var eingöngu 35 ára þegar hann stýrði liðinu. Það þýddi að hann væri mögulega enn á lífi 79 ára að aldri. Ég fór því á Facebook að leita að honum og sendi skilaboð á einhverja „Hooley“ í von um að Joe væri afi eða pabbi þeirra. En ekkert gekk þar. Ég reyndar komst að þeirri niðurstöðu á einum tímapunkti að hann væri pottþétt látinn. Ég hætti samt ekki og ákvað að komast að því í versta falli hvenær hann lést þá. Ég var búinn að lesa mér til um allt sem hafði birst um hann í blöðunum á Íslandi á þessum tíma og þetta var greinlega alger snillingur en á sama tíma kolruglaður.  Ég var því að gæla við að skrifa um hann smá greinarstúf og leitaði því frekari upplýsinga um hann á vefnum. Þar rakst ég á grein eftir breskan blaðamann sem hafði verið að búa til „hvar eru þeir nú“ grein um að mig minnir Barnsley lið frá því í fyrndinni. Þar kom nafn Hooley upp og tekið fram að hann byggi í Barnsley. Þessi grein var ekki nema tveggja ára gömul og því veðraðist ég allur upp og setti aukinn kraft í leitina að manninum. Ég skráði mig á Whitepages í Englandi og þar gat ég fundið heimilisföng og símanúmer. Það voru tveir Joe Hooley skráðir til heimilis á einhverjum tímapunkti í Barnsley en engin númer voru tengd þeim. Ég fann þá eftir þó nokkra símanúmeraleit númer hjá fyrirtæki sem hét Hooley´s roofing services. Ég þóttist vera búinn að ná því að það fyrirtæki væri í eigu Joe Hooley yngri sem er þekktur vandræðagemsi í Barnsley miðað við fréttir. Ég ákvað því einn morguninn að hringja í númerið til að reyna að grafast fyrir um föður eigandans. Þegar svarað var í símann af eldhressum breskum manni spurði ég hvort viðkomandi kannaðist við Joseph Winston Hooley sem hafði þjálfað lið Keflavíkur á Íslandi árið 1973. „Yes that was me“ var svarið. Það kom mér mjög á óvart enda bjóst ég ekki við því að hann væri enn að vinna og hvað þá reka fyrirtæki. En ég var algerlega óundirbúinn undir viðtal á þessum tíma og spurði hann því hvort ég mætti ekki hringja í hann næsta dag og spjalla við hann í klukkutíma. Hann var alveg klár í það og viðtalið tók ég svo daginn eftir. Sé eftir að hafa ekki tekið það upp og hreinlega að hafa ekki farið út og hitt manninn því hann var merkileg týpa og greinilega enn með öll ljós kveikt.
Ég hafði svo í millitíðinni talað við nokkra fyrrverandi leikmenn, Guðna Kjartans, Kalla Hermanns, Lúðvík Gunnars og einhverja fleiri. Þar fékk ég meira insider info en blöðin á þessum tíma gátu gefið um hvernig hann var í raun og veru. Það var alveg magnað að sama við hvern ég talaði þá töluðu allir þvílíkt vel um hann, þrátt fyrir að hann hefði farið í fússi og nánast skilið þá eftir í skítnum fyrir mikilvægan evrópuleik, svo svikið KR og svo hætt á miðju tímabilil þegar hann kom aftur.
Þegar ég spurði hann útí leiðinlegri hlutina sem ég hafði lesið um og heyrt af þá vildi hann ekki mikið ræða það.

Hér í gömlum myndskeiðum má sjá nokkur myndbrot af Keflvíkingum á tímum Joe Hooley og fleira.