Jóhann þrefaldur Íslandsmeistari
Borðtenniskappinn Jóhann Rúnar Kristjánsson úr Íþróttafélaginu Nes frá Reykjanesbæ varð þrefaldur Íslandsmeistari á Íslandsmóti fatlaðra í borðtennis um helgina þar sem hann sigraði í öllum sínum greinum.
Hann varði þar með titla sína frá síðasta ári í sitjandi flokki, tvíliðaleik og í opnum flokki og er ljóst að Jóhann er á góðri siglingu þessa dagana, en hann hefur tryggt sér þátttökurétt á Ólympíumóti fatlaðra sem fer fram í Aþenu í september.
„Þetta var bara fullt hús!“, sagði Jóhann í samtali við Víkurfréttir í dag. „Það er allt að ganga upp hjá mér núna og loksins er þessi mikla vinna sem ég er búinn að leggja í æfingar farin að skila sér.“
Jóhann er með mörg járn í eldinum um þessar mundir og er dagskráin hjá honum þétt næstu mánuði. „Ég var úti í Búdapest fyrir tveimur vikum síðan þar sem ég tók þátt í móti þar sem nokkrir spilarar sem ég mæti á Ólympíumótinu voru að keppa. Mér gekk ágætlega og ég lagði tvo gaura sem verða í Aþenu, en ég komst samt ekki upp úr mínum riðli. Ég og landsliðsþjálfarinn vorum ánægðir með það mót og ég er í góðum spilagír þessa stundina.“
Jóhannes segir dagskrána fyrir Ólympíumótið vera að skýrast og heldur hann næst til Dublin í næsta mánuði á alþjóðlegt punktamót.
Jóhann var fyrir stuttu valinn í Afreksmannahóp Íþróttasambands fatlaðra og þýðir það að sambandið mun sjá um ferðir hans á nokkur mót. Einungis tveir aðrir íþróttamenn eru í hópnum og eru það sundkapparnir Bjarki Birgisson og Kristín Rós Hákonardóttir. Ekki amalegur félagskapur það!