Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Jóhann reynir við lágmark á Olympíumótið í borðtennis
Miðvikudagur 17. ágúst 2011 kl. 17:18

Jóhann reynir við lágmark á Olympíumótið í borðtennis

Jóhann Rúnar Kristjánsson hefur tekið þátt í fjórum alþjóðlegum borðtennismótum á þessu ári en ekki náð sér almennilega á strik. Hann varð fyrir meiðslum á olnboga á öðru móti ársins sem áttu eftir að hrjá hann í öðrum mótum sem hann hefur tekið þátt í. Nú hefur Jóhann hins vegar gengist undir aðgerð og telur sig hafa náð fullum styrk að nýju og er stefnan tekin á tvö mót í haust þar sem reyna á við lágmark til að komast á Olympíumót fatlaðra í London eftir ár.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Meiðsli Jóhanns urðu þannig að hann fór í yfirréttu með olnbogann og beinflísar fóru inn í liðinn og hann segir að það sé ekkert spennandi að spila þannig. Hann hafi þó þrjóskast á tvö mót eftir að meiðslin komu upp. Núna hafi hann tvo til þrjá möguleika til að ná lágmarki fyrir Olympíumótið. Í dag er Jóhann í 23.-24. sæti á heimslistanum í sínum flokki en nái hann góðum árangri á einu móti geti hann auðveldlega komist upp í 15.-16. sætið. Til þess að það gerist þarf Jóhann að ná verðlaunasæti og hann telur góðan möguleika á því.


Næsta mót hjá Jóhanni er núna í september í Sheffield í Bretlandi. Það er sovkallað 40 punkta mót sem er ágætis styrkleikamót. Evrópumeistaramótið er svo í október. Takist Jóhanni ekki að ná Olympíulágmarkinu á þessum tveimur mótum, þá hefur hann þriðja og síðasta möguleikann á móti í Argentínu í desember. Jóhann segist þó helst vilja sleppa við það mót, enda langt og dýrt ferðalag en Jóhann þarf alltaf að hafa með sér aðstoðarmann, sem gegnir stöðu þjálfara, aðstoðarmanns og hjúkrunarfræðings. Hann segir hverja ferð á mót erlendis kosta allt að hálfri milljón króna. Í dag er orðið erfitt að fá styrktaraðila en helstu styrktaraðilar á síðustu árum eru annað hvort fallnir eða í þeirri stöðu að geta ekki lagt til stuðning.


Þeir sem vilja styrkja Jóhann Rúnar Kristjánsson í baráttu sinni fyrir sæti á meðal þeirra 16 bestu á Olympíumóti fatlaðra í London á næsta ári geta lagt til styrk með því að leggja inn pening á 0121-26-9511 (kt. 221273-3629).




Í þessari viku tók Jóhann Rúnar við myndarlegum styrk frá Íslenska gámafélaginu upp á 100.000 krónur. Það var Gísli Jóhannsson hjá félaginu sem veitti Jóhanni styrkinn og hann hvetur önnur fyrirtæki til að styðja Jóhann í baráttu sinni fyrir sæti á Olympíumótinu. Jóhann Rúnar vill nota tækifærið og þakka öllum þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa styrkt hann með einum eða öðrum hætti í gegnum árin.

VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson