Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Jóhann Ólafs: „KR-ingar eiga ekki titilinn“
Fimmtudagur 27. apríl 2017 kl. 10:42

Jóhann Ólafs: „KR-ingar eiga ekki titilinn“

Grindvíkingar ætla sér í oddaleik í Vesturbænum

Margir voru búnir að afskrifa Grindvíkinga eftir að þeir steinlágu gegn KR í fyrsta leik liðanna í úrslitum Domino’s deildar karla. Síðan hafa þeir kastað frá sér unnum leik á heimavelli og unnið fátíðan útisigur í Vesturbænum. Í kvöld er leikið í Grindavík og verða Grindvíkingar að sigra til þess að knýja fram oddaleik.

„Ég held að fólk hafi afskrifað okkur fyrir seríuna, kannski eðlilega það sem þeir eru með hörku lið og valinn mann í hverju rúmi. Við teljum okkur vera góða líka og höfum sýnt það í síðustu leikjum að við getum vel keppt við þetta lið og gott betur,“ segir Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindvíkinga. „Við vorum góðir í síðustu tveimur leikjum og reynum að byggja ofan á það sem við erum að gera vel.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jóhann segist eiga frekar auðvelt með að gleyma síðustu leikjum og einbeita sér að því sem framundan er. „Ég er að upplifa nýja hluti daglega og það er ofboðslega gaman að takast á við það.“ Hann fer óhræddur í leikinn í kvöld enda KR með einn sterkasta leikmannahóp sem sést hefur hérlendis. „Það er sjálfsagt einhver pressa á KR-ingum en mig varðar ekkert um það. Við setjum ákveðna pressu á okkur sjálfa og reynum að standa undir henni.“

Jóhann var nokkuð gagnrýndur eftir síðasta tímabil af sérfæðingum Stöðvar 2 en þeir lofa hann nú réttilega í hástert. Hafði þessi gagnrýni einhver áhrif?

„Nei alls ekki, það hafði engin áhrif á mig. Ég þykist vera fullviss um það hvað ég hef fram að færa. Ég hugsa þetta þannig að öll umfjöllun um íslenskan körfubolta skili alltaf einhverju. Hvort sem ég sé að standa mig eða einhver fari í skíðaferð, þetta er allt af hinu góða og hjálpar körfuboltanum.“

Hvers vegna eruð þið í úrslitum? „Það er heildin sem hefur skilað þessum árangri í úrslitakeppninni og við höfum fundið ákveðinn takt. Við höfum gaman og njótum þess að taka þátt í þessu, enda algjör forréttindi. Við erum líka að spila vel á okkar styrkleikum og finna veikleika andstæðinga.“ Jóhann vill ekki gefa út neinar yfirlýsingar um hvort titilinn fari loks úr Vesturbænum eftir þrjú ár.

„Við byrjum á því að vinna leikinn en það er risa gulrót fyrir okkur að mæta í DHL í oddaleik. KR-ingar eiga ekki titilinn, það er þeirra að vinna hann eins og okkar.“