Jóhann Helgi fyllir skarð Andra Rúnars

- Ákvað að gefa Pepsi- deildinni tækifæri

Jóhann Helgi Hannesson lék í gær sinn fyrsta knattspyrnu leik með Grindavík eftir að hann skrifaði undir samning við félagið. Grindavík mætti Njarðvík í gærkvöldi og enduðu leikar með jafntefli liðanna 3-3. Hann hefur alla sína tíð leikið með Þór Akureyri og ákvað að gefa Pepsi-deildinni tækifæri í ár og segir í samtali við fotbolti.net að það hafi verið kominn tími á að breyta til. Jóhann á að baki yfir tvö hundruð leiki með Þór og er hann 27 ára gamall.

Jóhann segir einnig að ef að Orri Hjaltalín, sem er kominn aftur í raðir Grindavíkur sem hluti af þjálfarateymi liðsins og leikmaður, geti elskað blátt og gult þá hljóti hann að geta það líka en erkifjendur Þórs, KA, leika í gulum og bláum búningum. Jóhann hefur neitað KA um það að  ganga til liðsins í mörg ár.

Óli Stefán, þjálfari Grindavíkur, seldi Jóhanni það að ganga til liðs við Grindavík eftir tuttugu mínútna símtal og fær Jóhann það verkefni að fylla skarð Andra Rúnars Bjarnasonar sem var markakóngur og besti leikmaður Pepsi-deildarinnar í fyrra.