Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jóhann glímir við erfið meiðsli
Miðvikudagur 20. september 2006 kl. 10:49

Jóhann glímir við erfið meiðsli

Jóhann Árni Ólafsson hefur ekki tekið þátt í undirbúningstímabilinu með Íslandsmeisturum Njarðvíkinga í sumar. Jóhann fór að finna fyrir verk í náranum í febrúar fyrr á þessu ári og eftir Evrópukeppnina í sumar með U 20 ára landsliðinu hefur hann ekki stundað körfuknattleik.

„Ég er ekki búinn að hreyfa mig í tvo mánuði, í vetur var ég í sjúkraþjálfun eftir að hafa fundið fyrir verkjum í náranum en ég hélt meiðslunum þá í skefjum og kláraði tímabilið með Njarðvík,“ sagði Jóhann í samtali við Víkurfréttir. Að loknu leiktímabilinu hjá Njarðvík tók við Evrópukeppnin með U 20 ára landsliðinu þar sem leiknir voru einir átta leikir á tíu dögum og það gerði endanlega útslagið hjá Jóhanni.

„Þetta eru nárinn, mjaðmir og neðra bak sem eru að hrjá mig og stundum leiða verkirnir upp í maga,“ sagði Jóhann sem fer í myndatöku á morgun þar sem hann vonast til þess að fá nánari skýringu á meiðslum sínum.

„Ég get ekki beðið eftir því að komast aftur í körfuna því ég hef aldrei áður á ferlinum átt við meiðsli að stríða og það var erfitt að sitja uppi í stúku og fylgjast með strákunum spila í Allt hreint mótinu á dögunum,“ sagði Jóhann sem gerði 9,3 stig að meðaltali í leik síðasta vetur með Njarðvíkingum. Víst þykir að Jóhann muni missa af fyrstu umferðunum í Iceland Express deildinni sem hefst þann 19. október næstkomandi.

[email protected]


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024