Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Jóhann Einvarðs í Manchester fyrir hálfri öld: Missti ekki út heimaleik hjá báðum liðum
Fimmtudagur 22. desember 2011 kl. 11:24

Jóhann Einvarðs í Manchester fyrir hálfri öld: Missti ekki út heimaleik hjá báðum liðum

Gamli bæjarstjórinn og þingmaðurinn Jóhann Einvarðsson mætti til Manchester hálfri öld síðar og rifjaði upp skemmtilega tíma í knattspyrnuborginni. Nam ensku í knattspyrnuborginni og hefur verið Man. Utd. aðdáandi frá 1959:c

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það hafði lengið verið á dagskránni hjá mér að fara aftur til Manchester en síðan var það Einvarður sonur minn sem hjó á þann hnút og bauð mér út. Það var mjög skemmtilegt að koma rúmum fimmtíu árum síðar aftur til borgarinnar,“ segir Jóhann Einvarðsson, fyrrverandi þingmaður Reykjaneskjördæmis en hann var m.a. bæjarstjóri í Keflavík á árunum 1970-80.

Jóhann hafði nýlokið námi í Samvinnuskólanum þegar hann ákvað að fara til Manchester borgar árið 1959 og þar dvaldi hann í tæpt ár, tuttugu og eins árs gamall. Þar nam hann ensku ásamt því að starfa í fræðslustofnun samvinnuhreyfingarinnar. Jóhann sem er 73 ára í dag segir að það hafi verið mikil viðbrigði að sjá borgina hálfri öld síðar. „Andinn er svipaður þó svo að útlitið sé breytt. Ég sá reyndar ekki mikið í þessari stuttu ferð minni núna en það var mjög gaman að koma aftur, sérstaklega á Old Trafford en þar var ég fastagestur 1959 til 1960 eða allan tímann sem ég dvaldi í borginni, þá ungur maður,“ segir Jóhann þegar hann er beðinn um að rifja aðeins upp gömlu árin í þessari þekktu knattspyrnuborg. Jóhann fór á nær alla heimaleiki beggja Manchesterfélaganna þennan tíma sem hann var í borginni.

Bobby Charlton eftirminnilegur
Einvarður sonur hans sem m.a. hefur starfað sem fararstjóri hjá Úrval Útsýn og fleiri aðilum notaði tækifærið síðla nóvembermánaðar og bauð pabba með sér á leik Man. Utd. og portúgalska liðsins Benfica. Jóhann segir að hjarta hans hafi verið United megin þó hann hafi sótt heimaleiki beggja liða í gamla daga. Bobby Charlton var hans maður en hann byrjaði að leika með Man. Utd. árið 1956 og lifði af hið hörmulega flugslys þar sem átta liðsfélagar hans létu lífið 1958. Jóhann var því í Manchester þegar United liðið var í sárum ári eftir slysið. Matt Busby, stjóri Man. Utd. sem einnig lifði af flugslysið byggði upp nýtt stórlið og tíu árum frá slysinu fagnaði liðið sigri í Evrópukeppninni, fyrst enskra liða með því að leggja Benfica í úrslitum á Wembley 1968 þar sem Charlton og George Best fóru á kostum. Jóhann skoðaði veggskjöld á Old Trafford í ferð sinni núna þar sem sjá má nöfn þeirra leikmanna og aðila frá félaginu sem létu lífið í slysinu.

Þýskur stríðsfangi í markinu hjá City
Jóhann segir að hann muni vel eftir leik við Real Madrid á Old Trafford þar sem margar stjórstjörnur Spánverjanna hafi verið með Madridarliðinu eins og t.d. Puscas og DiStefano. Man. Utd. tapaði þeim leik 6-2. Hann minnist líka markvarðar í Man. City liðinu en hann var þýskur stríðsfangi úr heimsstyrjöldinni en endaði í markinu hjá City. „Hann fór aldrei heim til Þýskalands,“ segir Jóhann þegar hann rifjar þetta upp.

Í ferð sinni núna til Manchester fór Jóhann á gamlar slóðir þar sem hann bjó í íbúð hjá fullorðinni ekkju. Nú var húsið á bak og burt og stór og flott einbýlishús komin í staðinn í hverfið. Jóhann segist muna vel eftir hóteli í grenndinni en núna kannaðist enginn við það.

Með 75 þúsund manns á leik
Keflvísku feðgarnir voru núna í hópi 75 þúsund áhorfenda á Old Trafford og leikurinn var hin ágætasta skemmtun en okkar maður var ekki ánægður með úrslitin og taldi að Man. Utd. hefði átt að leggja Benfica. Úrslitin urðu 2-2 og bæði mörk Portúgalanna voru af ódýrari gerðinni.
„Mér fannst mínir menn mun betri í leiknum og við hefðum átt að vinna. Þá hefðum við klárað dæmið og haldið haus í Evrópukeppninni. En það var frábært að fara á leikinn og upplifa stemmninguna rúmum fimmtíu árum síðar á heimavelli Man. Utd,“ segir Jóhann en hann er einn af milljónum manna sem er í aðdáendaklúbbi liðsins. Það er stærsti aðdáendaklúbbur í heiminum með tæpar 80 milljónir félaga um allan heim.

Feðgarnir og ritstjóri Víkurfrétta heilsuðu upp á nokkra þeirra á einni kránni við Old Trafford eftir leikinn við Benfica en þar var fullt út úr dyrum bæði fyrir og eftir leik. „Heimamenn hér í Manchester eins og svo margir enskir fótboltaáhugamenn kunna að taka þetta alla leið. Hér í Englandi er þetta lífsstíll,“ sagði Jóhann sem upplifði líka frábæra tíma í knattspyrnunni í Keflavík þegar hann var bæjarstjóri þar í áratug. Þá var Keflvík stórveldi í boltanum hér heima og gullaldarliðið hampaði Íslandsmeistaratitilinum fjórum sinnum á árunum 1964 til 1973. Jóhann hefur alla tíð verið mikill knattspyrnu- og íþróttaáhugamaður og sækir knattspyrnu- og körfuboltaleiki en íþróttin sem gamli bæjarstjórinn og þingmaðurinn stundar hins vegar sjálfur er golf. Hólmsvöllur í Leiru er hans heimavöllur og þar arkar hann glaður um grænar grundir á sumrin.

Jóhann skoðar minningarskjöldinn við Old Trafford. Á efstu myndinni er hann með Einvarði syni sínum fyrir framan leikvanginn.

Stemmningin er gríðarleg fyrir heimaleiki Man. Utd. enda er alltaf fullt, um 75 þús. manns á hverjum leik.

Ferguson, stjóri Man. Utd. áhyggjufullur í leiknum.

Leikurinn var fjörugur en heimamenn voru óánægðir að klára ekki dæmið. Úrslitin 2-2 og vik síðar var Evrópudraumur Man. Utd. úti. VF-myndir/Páll Ketilsson.

Fleiri myndir frá Manchester má sjá hér í myndagalleríi VF.