Jóhann Birnir áfram hjá Keflavík
Knattspyrnumaðurinn Jóhann Birnir Guðmundsson hefur samið um að leika með Keflavík næsta sumar en hann hefur framlengt samning sinn við félagið til eins árs. Það eru ánægjulegar fréttir fyrir Keflavík enda var Jóhann valinn leikmaður ársins hjá Keflavík þetta árið. Frá þessu er greint á heimasíðu Keflavíkur.
Jóhann er 34 ára gamall og lék fyrst með Keflavík árið 1994 en hafði áður leikið með Víði í Garði. Hann lék sem atvinnumaður með Watford á Englandi, Lyn í Noregi og Örgryte og GAIS í Svíþjóð á árunum 1997-2008 en sneri aftur til Keflavíkur árið 2008.
Jóhann á að baki 126 leiki með Keflavík í efstu deild og hefur skorað í þeim 34 mörk. Hann hefur einnig leikið 19 bikarleiki (sjö mörk) og átta leiki í Evrópukeppnum (eitt mark). Jóhann lék með öllum yngri landsliðum Íslands og á að baki átta landsleiki.