Jóhann B. til Örgryte?
Knattspyrnukappinn Jóhann B. Guðmundsson mun að öllum líkindum fá samningstilboð frá sænska úrvalsdeildarliðinu Örgryte, en hann hefur verið þar til reynslu að undanförnu og lék m.a. með liðinu á innanhússmóti í Danmörku. Í samtali við Morgunblaðið í gær sagðist Jóhann vera mjög ánægður með dvölina, en málin myndu skýrast síðar í dag.
Íslendingurinn Atli Sveinn Þórarinsson hefur verið á mála hjá liðinu undanfarin ár, en auk hans hafa Brynjar Björn Gunnarsson og fleiri Íslendingar spilað með liðinu.