Jóhann Árni og Petrúnella íþróttafólk ársins 2013 í Grindavík
Körfuboltaparið Jóhann Árni Ólafsson og Petrúnella Skúladóttir voru kjörin íþróttamaður og íþróttakona Grindavíkur 2013 við hátíðlega athöfn í Hópsskóla á gamlársdag. Jóhann Árni var lykilmaður í Íslandsmeistaraliði Grindavíkur á síðasta keppnistímabili og Petrúnella einnig í lykilhlutverki í kvennaliði félagsins.
Allar deildir UMFG og Golfklúbbur Grindavíkur tilnefndu íþróttamenn og íþróttakonur ársins úr sínum röðum. Valnefndin samanstendur af stjórn UMFG og frístunda- og menningarnefnd. Jóhann Árni og Petrúnella fengu bæði yfirburða kosningu. Þau eru körfuboltapar, eiga saman eitt barn og annað er á leiðinni og því hefur Petrúnella ekki leikið með kvennaliðinu nú í lok ársins.