Joey Gibbs skorar í fjórða leiknum í röð
Keflvíkingar tóku á móti Leiknismönnum í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld og höfðu sigur í öðrum leiknum í röð – og aftur reimaði Ástralinn Joey Gibbs á sig markaskóna og skoraði í sínum fjórða leik í röð.
Það var eins og það hafi farið fram hjá Leiknismönnum þegar dómarinn blés til leiks því fyrstu mínúturnar hreinlega óðu Keflvíkingar í færum og í raun ótrúlegt að boltinn hafi ekki farið inn fyrr en á sjöttu mínútu. Markið kom eftir hornspyrnu þar sem Gibbs var réttur maður á réttum stað og stýrði boltanum í netið (6').
Eftir markið lifnaði aðeins yfir gestunum en þeir komust ekki langt gegn sterkri vörn Keflavíkur og áttu ekkert markskot í fyrri hálfleik.
Fyrsta markskot Leiknis kom snemma í seinni hálfleik en fyrsta skot þeirra á rammann kom ekki fyrr en eftir 74 mínútna leik og þá átti Sindri Kristinn Ólafsson ekki í vandræðum með það.
Keflavík hefði getað gert út um leikinn á 84. mínútu þegar Ari Steinn Guðmundsson komst einn á móti markmanni en hann fór illa að ráði sínu og nýtti færið ekki. Leiknismenn voru nálægt því að jafna skömmu síðar en þá bjargaði Sindri með góðri vörslu, boltinn barst á Leiknismann sem var tekinn niður en blessunarlega fyrir Keflvíkinga var hann dæmdur rangstæður og því engin vítaspyrna dæmd.
Sterk vörn Keflavíkur tryggði öll þrjú stigin og með sigrinum fer Keflavík upp fyrir Leikni, í níunda sæti með níu stig. Aðeins einu stigi munar á Keflavík og liðunum í sjöunda (Fylkir) og áttunda sæti (Stjarnan) en Keflavík hefur leikið einum leik færri en Fylkir og tveimur leikjum færri en Stjarnan.
Hilmar Bragi Bárðarson, ljósmyndari Víkurfrétta, brá sér á völlinn og tók myndir sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.