Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jankovic fundar með Keflavík
Mánudagur 4. október 2004 kl. 15:42

Jankovic fundar með Keflavík

Milan Stefán Jankovic, þjálfari bikarmeistara Keflavíkur, mun funda með stjórn knattspyrnudeildar félagsins á morgun þar sem rætt verður um áframhaldandi störf hans með félaginu. Samningur hans rennur út í haust og eru uppi miklar vangaveltur um framhaldið.

Þær sögur hafa flogið fjöllum hærra að Grindvíkingar hafi hug á að fá kappann til liðs við sig ásamt Guðjóni Þórðarsyni, fyrrum landsliðsþjálfara.

Milan sagði í samtali við Víkurfréttir ekki hafa fengið formlegt tilboð frá Grindvíkingum, en hann hygðist fyrst ræða við Keflvíkinga áður en eitthvað annað kæmi til tals.

Jónas Þórhallsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, sagði að um gróusögur væri að ræða. Þeir væru ekki í formlegum viðræðum við neinn í sambandi við þjálfarastöðuna en hann vonaðist til að þessi mál færu að skýrast um miðjan mánuðinn.

Rúnar Arnarson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, sagðist vonast til að Milan yrði áfram. „Ég veit ekki annað en að gagnkvæmur áhugi sé fyrir samstarfi. Okkar vilji er auðvitað að halda karlinum.“

Í framhaldi af því var Rúnar inntur út í samningamál leikmanna, en allnokkrir Keflvíkingar eru samningslausir í haust. „Við setjumst niður með leikmönnum í næstu viku og ræðum þessi mál. Við erum auðvitað að vonast til að halda í þá flesta.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024