Jakob Jónharðsson ráðinn til Keflavíkur
Í gær tilkynnti stjórn knattspyrnudeildar Keflavíkur að Jakob Már Jónharðsson hefði verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla. Hann tekur við starfinu af Ragnari Steinarssyni sem er að flytja af landi brott. Jakob ætti að kannast við sig í herbúðum Keflavíkur þar sem hann lék þar lengi á ferli sínum sem leikmaður.
Í samtali við Vf.is sagðist Jakob vera mjög spenntur fyrir því að spreyta sig á þessum vettvangi. „Já, ég sótti um fyrir nokkru en þurfti að bíða eftir því að stjórnin kláraði sína samninga við Jankó (Milan Jankovic, þjálfara). Þegar það var komið á hreint gátu þeir farið að skoða aðstoðarmenn og ég held að það hafi verið svona fimm eða sex aðilar sem komu til greina og að lokum varð ég fyrir valinu.“
Jakob hefur þegar lokið tveimur þjálfaranámskeiðum hjá KSÍ og stefnir á framhald í þeim málum. Hann er einnig lærður einkaþjálfari og mun það eflaust koma að góðum notum. „Það er nú þannig að það er erfitt að slíta sig frá boltanum eftir að hafa verið svona lengi í þessu, en ég hef fullan metnað til þess að ná enn lengra í þessum efnum.“ sagði Jakob að lokum.