Jafntefli í leikjum Grindavíkur og Keflavíkur
Grindavík og Keflavík gerðu bæði jafntefli í leikjum sínum í úrvalsdeild karla í knattspyrnu í kvöld. Grindavík og Fjölnir skyldu jöfn í Grindavík, 1-1, og Keflavík sótti stig á Hlíðarenda með 2-2 jafntefli gegn Val.
Grindvíkingar lentu undir strax í upphafi leiks þegar Jónas Grani Garðarson skoraði úr vítateig heimamanna á fimmtu mínútu. Markvörðurinn Óskar Pétursson, sem nýlega framlengdi samning við Grindavík, varði skot Andra Vals Ívarssonar en Jónas Grani var réttur maður á réttum stað.
Heimamenn voru betri aðilinn lengst af í fyrri hálfleiknum, enda með vindinn í bakið, og fengu nokkur góð tækifæri áður en Óli Baldur Bjarnason jafnaði metin á 34. mínútu. Hann fékk stungusendingu inn fyrir vörnina frá Sveinbirni Jónassyni, lék á markvörð Fjölnis og skoraði örugglega.
Seinni hálfleikur var ekki nándar nærri eins skemmtilegur og sá fyrri og jafntefli staðreynd.
Leikur Vals og Keflavíkur á Hlíðarenda byrjaði með miklum látum þar sem mörkin sölluðust inn á upphafsmínútunum.
Heimamenn voru fyrri til þar sem Pétur Georg Markan skoraði á 2. mínútu eftir að hafa fengið stungusendingu innfyrir vörnina.
Haukur Ingi Gunnarsson var svo snöggur til að jafna, en tveimur mínútum seinna átti hann skemmtilega rispu þar sem hann sá við markverði Valsara með skoti úr markteig.
Stuttu síðar skoruðu Keflvíkingar á ný þegar Guðmundur Steinarsson skaut í Magnús Þorsteinsson og í markið, en það var dæmt ólöglegt sökum rangstöðu.
Valsarar áttu eftir það tvö skot í rammann hjá Keflavík áður en Helgi Sigurðsson kom þeim yfir þegar hann skoraði úr vítateig.
Skömmu síðar urðu Keflvíkingar fyrir blóðtöku þegar Haukur Ingi fór meiddur af velli, en ekki er enn vitað hvort meiðslin séu alvarleg, eða hvort um fyrirbyggjandi aðgerðir hafi verið að ræða hjá Kristjáni Guðmundssyni.
Þannig var staðan þegar Kristinn Jakobsson flautaði til leikhlés, en seinni hálfleikur ekki alveg eins viðburðaríkur.
Valsmenn komu knettinum í mark Keflvíkinga eftir 68 mín leik, en það mark var dæmt af vegna rangstöðu.
Jóhann B. Guðmundsson kom svo inná sem varamaður stuttu síðar og var ekki lengi að setja mark sitt á leikinn í orðsins fyllstu merkingu. Hann fékk knöttinn í fæturnar eftir mikinn darraðadans í vítateig Valsara og þandi netmöskvana með góðu skoti.
Eftir það bar lítið til tíðinda fyrir utan að Marel Baldvinsson átti gott skot sem Lasse Jørgensen varði laglega.
Eftir 14 umferðir eru Keflvíkingar komnir upp í 4. sæti þar sem þeir eru með 24 stig, tveimur stigum á eftir Fylki og þremur á eftir KR. FH eru enn með 10 stiga forskot á toppnum.
Grindvíkingar eru hins vegar komnir í fallsæti á ný. Þeir eru í 11. sæti, jafnir Fjölni að stigum og með lakari markatölu, en eiga þó leik til góða.
Mynd úr safni VF - Jóhann B. Guðmundsson bjargaði stigi fyrir Keflvíkinga í kvöld