Jafntefli í kaflaskiptum leik
Keflavík er komið í 6. sæti Landsbankadeildarinnar eftir jafntefli á heimavelli sínum gegn botnliði Fram, 1-1. Þórarinn Kristjánsson kom heimamönnum yfir á 22. mín, en Jón Gunnar Gunnarsson jafnaði á þeirri 39. Leikurinn var skemmtilegur og opinn í fyrri hálfleik en sá seinni var bragðdaufur og tíðindalítill.
Aðstæður til fótboltaiðkunar voru með besta móti í Keflavík þar sem veðrið lék við leikmenn og vallargesti, sem hefðu að ósekju mátt vera fleiri.
Leikurinn byrjaði rólega þar sem liðin þreifuðu fyrir sér. Heimamenn komust þó æ meira inn í leikinn eftir því sem á leið. Þeir áttu nokkrar góðar sóknir sem ekkert varð þó úr.
Fram fékk einnig sín færi og var það hættulegasta þeirra á 13. mín þegar Ólafur Gottskálksson varði lúmskt skot Jóns Gunnars Gunnarssonar.
Heimamenn höfðu fulla stjórn á leiknum þegar loks dró til tíðinda á 22. mín. Þá fékk Magnús háa sendingu inn á teig og sendi boltann út á hægra teighornið þar sem Þórarinn Kristjánsson lék á tvo varnarmenn og afgreiddi boltann örugglega framhjá Gunnari Sigurðssyni í marki Framara.
Eftir markið færðust Keflvíkingar í aukana og réðu lögum og lofum á vellinum.
Þeir voru mun meira með boltann og áttu nokkur góð skot að marki. Á 36. mín hóf Guðmundur Steinarsson skemmtilega sókn með löngum bolta á Þórarinn sem sendi hann viðstöðulaust aftur yfir á Magnús sem renndi boltanum framhjá markinu út þröngu færi. Skemmtilegt spil sem hefði hæglega getað endað með marki.
Þremur mínútum síðar jöfnuðu Framarar hins vegar, þvert á gang leiksins. Jón Gunnar Gunnarsson lyfti boltanum þá yfir í fjærhorn Keflavíkurmarksins eftir langt innkast. Jón stóð illa valdaður inná teig og slengdi fæti í boltann og Ólafur í markinu átti ekki möguleika á því að verja.
Ekkert markvert gerðist fram að hálfleik og má segja að það sama megi segja um allan síðari hálfleikinn. Keflvíkingar voru meira með boltann og spiluðu á stundum vel sín á milli, en ekkert gekk í að skapa færi. Leikurinn snerist upp í hnoð þar sem fátt gladdi augað fyrir utan vinnusemi og elju Jónasar Guðna Sævarssonar á miðjunni hjá Keflavík. Jónas hljóp sig hreinlega upp að hnjám í stanslausri baráttu um allan völl og óð í hvert návígið á fætur öðru.
Ekki gekk liðinu þó að skapa sér almennileg færi jafnvel þótt Framaranum Ragnari Árnasyni væri vikið af velli á 69. mín. Úrslitin voru vonbrigði fyrir Keflvíkinga sem rufu þó þriggja leikja taphrinu og skoruðu auk þess ekki sjálfsmark sem heyrir til tíðinda á þeim bænum.
„Við áttum skilið að vinna þennan leik... Vð börðumst allan leikinn en það gekk bara ekki upp,“ sagði Jónas Guðni niðurlútur í leikslok.
„Við fengum á okkur þetta s****mark, og fengum líka nokkur færi í fyrri hálfleik sem við hefðum átt að nýta. Við ætluðum að rífa okkur upp í hálfleik en okkur gekk ekki að skora. Þetta kemur hjá okkur ef við förum að skapa okkur færi og nýta þau.“
Næsti leikur Keflvíkinga er á heimavelli þeirra gegn KA þann 14. júlí.
VF-myndir/Atli Már Gylfason