Jafntefli í fjörugum leik Suðurnesjaliðanna
Nú í kvöld mættust Suðurnesjaliðin í Pepsi deild karla í 13. umferð deildarinnar. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli en bæði mörkin komu á áttundu mínútu leiksins. Eftir leikinn eru Grindvíkingar í 10. Sæti með 9 stig en Keflvíkingar í 5. sæti með 20. Alls mættu 1377 á leikinn sem var mjög fjörugur og hin besta skemmtun.
Leikurinn fór af stað með látum, liðin skiptust á að sækja og var ljóst að baráttan yrði mikil. Áhorfendur þurftu ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu en það kom strax á áttundu mínútu. Það skoraði Gilles Ondo, leikmaður Grindavíkur, eftir góða sendingu frá Jósefi Kristni Jósefssyni. Grindvíkingar komnir í eitt núll en það stóð ekki lengi því innan við mínútu síðar voru Keflvíkingar búnir að svara fyrir sig með marki. Það skoraði Jóhann Birnir Guðmundsson sem fékk boltann frá Magnúsi Þóri Matthíassyni, lék á varnarmann Grindavíkur og lagði boltann í netið. Næstu mínútur hélt fjörið áfram og litu nokkur færi dagsins ljós en ekki tókst að nýta þau til fulls. Á 25. mínútu voru Gilles Ondo nálægt því að skora annað mark sitt fyrir Grindavík í leiknum. Hafþór Ægir Vilhjálmsson sendi þá boltann inn í teig á Gilles Ondo sem tók við boltanum og þrumaði á markið. Ómar í markinu sá þó við honum og varði með tilþrifum. Þegar flautað var til hálfleiks hafði hvorugt lið náð að bæta við marki og því var staðan enn 1-1.
Í upphafi síðari hálfleiks fengu Grindvíkingar hornspyrnu. Leikmaður Grindavíkur náði skalla á markið en Keflvíkingar voru heppnir og náðu að bjarga á línu. Þegar leið á hálfleikinn fóru Keflvíkingar að verða töluvert sterkari aðilinn á vellinum og undir lokin var einstefna á vellinum í átt að marki Grindvíkinga. Hvert dauðafærið rak annað en alltaf sluppu Grindvíkingar með skrekkinn. Þeir björguðu meðal annars tvisvar í röð á línu eftir hornspyrnur frá Keflvíkingum. Leikmenn Keflavíkur horfðu á boltann sleikja slánna, fara í innan verða stöngina og aftur út en aldrei kom markið og því lauk leiknum með 1-1 jafntefli.
Næsti leikur Keflavíkur er gegn Fylki á Fylkisvelli fimmtudaginn 5. ágúst og hefst hann klukkan 19:15. Á sama tíma taka Grindvíkingar á móti Fram á Grindavíkurvelli.
VF-myndir / Sölvi Logason
.
.
Fleiri myndir má finna í myndasafninu.