Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Jafntefli á Njarðvíkurvelli
Fimmtudagur 22. júlí 2004 kl. 23:46

Jafntefli á Njarðvíkurvelli

Njarðvík og Stjarnan skildu jöfn í kvöld 2-2 á Njarðvíkurvelli í blíðskaparveðri. Eftir leiki kvöldsins er Njarðvík enn í 4. sæti 1. deildar með 16 stig en Stjarnan í því áttunda með 11 stig.

Njarðvíkingar voru sterkari aðilinn í upphafi leiks og á annarri mínútu átti Magnús Ólafsson skot rétt fram hjá marki Stjörnumanna. Garðbæingar sóttu svo í sig veðrið og á 15. mínútu fékk Adolf Sveinsson sendingu inn fyrir vörn Njarðvíkinga þar sem Rúnar Þór Daníelsson, markmaður Njarðvíkinga, felldi Adolf í teignum og því réttilega dæmd vítaspyrna. Rúnar fékk að auki að líta gula spjaldið. Vítaspyrnuna tók Dragoslav Stojanovic og skoraði örugglega þrátt fyrir að Rúnar Þór hafi skutlað sér í rétt horn. Njarðvík 0-1 Stjarnan.


Á 30. mínútu var það Snorri Már Jónsson sem spyrnti boltanum fram völlinn, Magnús Ólafsson framlengdi honum svo á Eyþór Guðnason sem renndi boltanum snyrtilega framhjá Bjarka Guðmundssyni í mark Stjörnumanna. Njarðvík 1-1 Stjarnan.
Fjórum mínútum síðar var Eyþór aftur á ferðinni og skoraði þá skemmtilegt mark. Hann sá þá að Bjarki, markmaður Stjörnunnar, var kominn of langt út úr markinu og tók Eyþór þá á það ráð að réka hnéið í boltann sem fór hátt yfir Bjarka og í netið. Njarðvík 2-1 Stjarnan og þeir grænu með yfirhönd í hálfleik.

Skammt var liðið af seinni hálfleik þegar Bjarki, markmaður Garðbæinga, gerðist brotlegur, annar aðstoðardómaranna gerði þá athugasemd að Bjarki hefði verið fyrir utan teig er hann tók útspark og því dæmd aukaspyrna. Spyrnuna tók Eyþór Guðnason og hafnaði boltinn í þverslánni.
Allt fram að 85. mínútu var fremur rólegt yfir seinni hálfleik en þó áttu bæði lið skot í stöng með stuttu millibili. Á 85. mínútu var það Guðni Erlendsson sem rauk upp vinstri kantinn og sendi boltann fyrir mark Stjörnunnar sem rataði á Gunnar Sveinsson en þar var Bjarki Guðmundsson vel staðsettur og varði meistaralega frá Gunnari sem átti bágt með að leyna vonbrigðum sínum. Þess má geta að Bjarki Guðmundsson átti stórleik í marki Stjörnunnar og hélt hann sínum mönnum inni í leiknum.
Stjörnumenn neituðu að játa sig sigraða og í viðbótartíma var það Adolf Sveinsson sem jafnaði leikinn fyrir Stjörnuna með þrumufleyg af löngu færi, óverjandi fyrir Rúnar í markinu og úrslit leiksins því 2-2.

Eins og áður segir þá eru Njarðvíkingar enn í 4. sæti 1. deildar en Stjarnan í því áttunda. Eyþór Guðnason, markahrókur Njarðvíkinga í kvöld, var svekktur með niðurstöðuna. „Það var svekkjandi fyrir okkur að klára ekki leikinn, en svona er þetta bara stundum. Næsti leikur er gegn Fjölni og það verður án efa hörku leikur, við höfum ekki tapað á móti þeim í fjórum síðustu viðureignum liðanna og við ætlum ekki að fara að taka upp á því í næsta leik. Við gleymum bara þessum leik í kvöld og einbeitum okkur að þeim næsta,“ sagði Eyþór að lokum.

VF-mynd/Jón Björn Ólafsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024