Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 1. júní 2000 kl. 09:32

Jafnt í leikjum Suðurnesjaliðanna.

Grindvíkingar og Keflvíkingar áttu möguleika á að komast á topp Landssímadeildarinnar, með sigri í leikjum sínum í gærkvöld. Þeir draumar urðu þó að engu þar sem bæði lið gerðu jafntefli í sínum leikjum. Grindvíkingar gerðu 1-1 jafntefli gegn KR, í Vesturbænum í Reykjavík, en Keflvíkingar gerðu einnig 1-1 jafntefli á heimavelli gegn Fylki. Staðan í efstu fjórum sætunum er því óbreytt eftir leiki kvöldsins, þar sem öll liðin fengu eitt stig hvert. KR-ingar voru betri í fyrri hálfleik gegn Grindavík og náðu verðskuldaðri forystu á 31. mínútu leiksins, með marki frá Einari Þór Daníelssyni, eftir góða sendingu frá Sigþóri Júlíussyni. Vörnin hjá Grindvíkingum virtist gleyma sér í stutta stund og KR-ingar refsuðu þeim fyrir það. Í síðari hálfleik small leikur Grindvíkinga saman og uppskáru þeir eftir því, en á 30. mínútu síðari hálfleiks var þeim dæmd vítaspyrna eftir að brotið hafði verið á Sverri Þór Sverrissyni inni í teig heimamanna. Ólafur Örn Bjarnason tók spyrnuna og skoraði af öryggi og tryggði þar með Grindvíkingum stig í 7. umferð Landssímadeildarinnar. Keflvíkingar byrjuðu heldur rólega gegn Fylkismönnum í gærkvöld, en áttu þó nokkrar góðar sóknir, meðan Fylkismenn léku betur. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik, þrátt fyrir að bæði lið hefðu átt góð marktækifæri. Keflvíkingar voru mun baráttuglaðari í síðari hálfleik og sýndu þá allt annan leik en í þeim fyrri. Hjálmar Jónsson braut loks ísinn á 40. mínútu síðari hálfleiks þegar hann fékk góða sendingu frá Guðmundi Steinarssyni inn fyrir vörn Fylkismanna og kom heimamönnum í 1-0. Fylkismenn voru þó ekki búnir að gefa upp vonina og sóttu af krafti eftir mark Keflvíkinga. Fylkismönnum tókst að jafna metin þegar um tvær mínútur voru til leiksloka, eftir röð mistaka hjá vörn heimamanna sem geta vart verið sáttir við að tapa þarna tveimur stigum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024