Jafnt hjá Keflavík gegn Stjörnunni
- nýr leikmaður til reynslu hjá Keflvíkingum sem hyggjast styrkja leikmannahópinn fyrir sumarið.
Nýr leikmaður er nú til reynslu hjá Keflavík en hann heitir Fuad Gazibegovic og er frá Sloveníu. Hann er örvfættur og leikur sem vinstri bakvörður eða kantmaður og á miðjunni.
Fuad er fæddur árið 1982 og hefur leikið með nokkrum liðum í heimalandi sínu auk þess að hafa leikið í Bosníu-Herzegóvínu og Austurríki. Fuad kom til landsins á sunnudaginn og verður hér í viku. Zoran Ljubicic hefur sagt að hann vilji styrkja Keflavíkurliðið eitthvað fyrir sumarið og muni leita hófanna hér heima eða erlendis.
Keflavík og Stjarnan gerðu 2-2 jafntefli í Lengjubikarnum en leikið var í Reykjaneshöllinni sl laugardag. Halldór Orri Björnsson kom gestunum yfir um miðjan fyrri hálfleik en Keflvíkingar komust yfir með tveimur mörkum í byrjun þess seinni. Fyrst skoraði Jóhann Birnir Guðmundsson úr víti og síðan bætti Hörður Sveinsson öðru marki við. Daníel Laxdal jafnaði svo fyrir Stjörnuna skömmu síðar og fleiri urðu mörkin ekki.
Eftir leikinn er Keflavík í 6.-7. sæti riðilsins með tvö stig eftir þrjá leiki. Næsti leikur er gegn Leikni í Reykjaneshöllinni laugardaginn 16. mars kl. 12:00.
Lið Keflavíkur gegn Leikni. VF-myndir/JónÖrvar.