Jafn baráttuleikur fyrir norðan
Keflvíkingar léku á Akureyri í gær þar sem þeir mættu heimamönnum í KA í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu. Eftir hörkuleik, þar sem sigurinn hefði getað fallið með hvoru liði, voru það heimamenn sem höfðu betur á endanum.
Leikurinn var jafn og fjörugur frá fyrstu mínútu og á þeirri fimmtu kom fyrsta færi Keflvíkinga þegar Marley Blair var nærri því að koma þeim yfir en skot hans var rétt framhjá markinu.
Skömmu síðar voru heimamenn nærri því að komast yfir þegar sóknarmaður þeirra skallaði yfir fyrir nánast auðu marki. KA-menn gerðu hins vegar betur á 24. mínútu þegar þeir unnu boltann framarlega og skoruðu. Staðan 1:0 í hörkuleik.
Upp úr markinu sóttu Keflvíkingar í sig veðrið og rétt fyrir hálfleik átti Joey Gibbs skot sem hafnaði í hendi varnarmanns KA og víti dæmt. Gibbs tók vítið sjálfur og jafnaði leikinn, 1:1 í hálfleik.
Keflvíkingar voru nærri því að komast yfir í blábyrjun seinni hálfleiks þegar Sindri Þór Guðmundsson vann boltann og sendi á Kian Williams sem skaut hárfínt fram hjá marki KA.
Leikurinn var mjög jafn og liðin skiptust á að skapa sér færi en þegar um tíu mínútur voru eftir á klukkunni komust heimamenn í góða sókn sem endaði á marki. Keflvíkingar settu mikla pressu á KA síðustu mínúturnar en þrátt fyrir mikinn baráttuvilja náðu þeir ekki að jafna og tap niðurstaðan.
Keflavík er í áttunda sæti Pepsi Max-deildarinnar með sextán stig eftir að hafa leikið fjórtán leiki. Leiknir er í sætinu fyrir ofan þá með átján stig en hefur leikið einum leik fleiri en Keflavík. FH er einnig með átján stig en þeir hafa einungis leikið þrettán leiki.