Ivey til Njarðvíkur
Bakvörðurinn Jeb Ivey hefur skrifað undir eins árs samning við körfuknattleikslið UMFN. Ivey sem hefur skapað sér nafn sem ein skæðasta skytta Intersport-deildarinnar, hefur gert garðinn frægan með KFÍ og Fjölni, og leiddi hann Fjölnisliðið í bikarúrslitin þar sem þeir töpuðu gegn Njarðvík.
Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkinga, sagði í samtali við Víkurfréttir að þeir væru afar spenntir fyrir komu Iveys, enda misstu þeir báða leikstjórnendur sína frá síðustu leiktíð. Tilkoma hans þýðir að Njarðvíkingar hafa ákveðið að treysta á stóru mennina sína þá Egil Jónasson og Friðrik Stefánsson. Einar segir Egil sérlega líklegan til að springa út á næstu leiktíð með auknum leiktíma.
Stjórn Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur hefur jafnframt samið við þrjá af yngri leikmönnum félagsins. Þeir Guðmundur Jónsson, Jóhann Árni Ólafsson og Kristján Rúnar Sigurðsson hafa allir samið við UMFN til 2ja ára og er það mikið fagnaðarefni fyrir félagið. Áður höfðu Brenton Birmingham, Friðrik Erlendur Stefánsson og Halldór Rúnar Karlsson allir samið við félagið.