Íþróttamaður Reykjanesbæjar 2013 valinn á morgun
- og Íslandsmeistarar 2013 heiðraðir
Íþróttamaður og íþróttamenn Reykjanesbæjar fyrir árið 2013 verða útnefndir í hófi í íþróttamiðstöð Njarðvíkur á gamlársdag kl. 13:00 – 14:00. Hátíðin er opin öllum bæjarbúum og eru allir iðkendur og stjórnarmenn félaga og deilda sérstaklega hvattir til að fjölmenna.
Að venju verða allir Íslandsmeistarar Reykjanesbæjar á árinu sem er að líða, heiðraðir af Reykjanesbæ. Þeir fá afhentan verðlaunapening með áletrun um meistaratignina.
Allir sem urðu Íslandsmeistarar hjá íþróttafélögum í Reykjanesbæ árið 2013 og þeir sem hlotið hafa tilnefningar, eiga að mæta í íþróttahúsið í Njarðvík þann 31. des. og úr þeim hópi verður valinn íþróttamaður Reykjanesbæjar 2013. Við sama tækifæri verða veittar viðurkenningar fyrir íþróttamann hverrar greina fyrir sig.
Þetta er í 18. sinn sem íþróttamaður Reykjanesbæjar verður útnefndur. Tólf einstaklingar hafa frá upphafi hlotið útnefninguna íþróttamenn Reykjanesbæjar, sex karla og sex konur.
Einn einstaklingur hefur hlotið þann titil þrisvar, en það er sundkonan Erla Dögg Haraldsdóttir sundkona úr UMFN.
Núverandi handhafi titilsins er Árni Már Árnason sundmaður úr UMFN.