Íþróttadagur í Reykjanesbæ
Íþróttadagur verður haldinn í Reykjanesbæ nk laugardag, þar sem líkamsræktarstöðvar bæjarins, Golfklúbbur Suðurnesja, Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar, ÍBR og TÍR taka höndum saman og bjóða fólki upp á hreyfingu af ýmsum toga. Opið hús verður í líkamsræktarstöðvunum, en þar verða leiðbeinendur í tækjasölum og leiðbeina byrjendum við æfingarnar. Þá verður golfklúbburinn með kynningu og byrjendakennslu. Hápunktur dagsins verður svo í íþróttahúsi Keflavíkur við Sunnubraut, en þar verða öll spinning - hjól bæjarins, um 60 talsins. Reiknað er með að þetta verði einn fjölmennasti spinning-tími landsins, en áætlað er að hann standi yfir í um 90 mínútur þar sem leiðbeinendur af líkamsræktarstöðvunum sjá um æfingarnar. Þá hefur Markaðs- og atvinnumálaskrifstofan látið gera gott göngukort af Reykjanesbæ, þar sem fólk getur valið gönguleiðir við hæfi. Kortin er m.a. hægt að nálgast á líkamsræktarstöðvum bæjarins.Íþróttadagurinn er fyrst og fremst hugsaður sem hvatning til þeirra sem „eru alltaf á leiðinni“, til að stíga fyrstu skrefin í átt að heilbrigði og hreysti. Segja má því að þetta sé kjörið tækifæri fyrir bæjarbúa og aðra til að hefja líkamsrækt eða annars konar reglulega hreyfingu.