Íþróttaárið 2013: Kristófer er rétt að byrja
Davíð Hildiberg býst við góðu íþróttaári
Sundkappinn Davíð Hildiberg Aðalsteinsson hefur undanfarin ár stundað nám við Arizona State háskólann í Bandaríkjunum og keppt þar með liði skólans við góðan orðstír. Davíð fór yfir árið í íþróttum á Suðurnesjum en það sem stóð upp úr að hans mati voru sigrar hjá kvennaliði Keflvíkinga í körfubolta og áframhaldandi sigurganga ÍRB í sundi.
Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2013 á Suðurnesjum?
Það sem kemur fyrst í hugann er Íslands- og bikarmeistaratitill kvenna í körfubolta. Svo var árangur sundmanna ÍRB góður eins og undanfarin ár.
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
Ég bjóst við meiru frá karlaliði Keflvíkinga í fótbolta.
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
Kristófer Sigurðsson, sundmaður ÍRB stóð sig rosalega vel. Hann vann bæði 200 og 400m skriðsund á Íslandsmeistaramótinu í nóvember síðastliðnum. Hann er búinn að æfa eins og maður og er rétt að byrja.
Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
Ég er mjög spenntur að sjá hvernig velgengni íþróttamanna í Taekwondo á eftir að þróast. Mér finnst hafa farið lítið fyrir þeim en þetta ár var mjög flott hjá þeim. Þau áttu íþróttamann Reykanesbæjar, einnig íþróttakarl og íþróttakonu Keflavíkur sem er frábær árangur.
Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
Ég hef fulla trú á okkar fólki. Við höfum alltaf verið sterk í íþróttum á Suðurnesjunum og þetta ár verður geðveikt!