Íþróttaárið 2013: Íslands- og bikarmeistaratitill til Reykjanesbæjar
Kvikmyndagerðamaðurinn Garðar Örn gerir upp árið í íþróttum
Kvikmyndagerðamaðurinn Garðar Örn Arnarson frá Keflavík hefur átt annasamt ár. Hann hefur í gegnum tíðina fengist við íþróttatengt efni og m.a. gert heimildarmyndir um Guðmund Steinarsson knattspyrnumann og fyrsta Íslandsmeistaratitil Keflvíkinga í karlakörfunni. Nú á árinu frumsýndi Garðar svo glæsilega heimildarmynd um Njarðvíkinginn Örlyg Aron Sturluson sem lést ungur að árum, en Örlygur þótti eitt mesta efni sem körfuboltinn á Íslandi hefur átt. Við fengum íþróttaáhugamanninn Garðar til þess að gera upp árið í íþróttum á Suðurnesjum.
Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2013 á Suðurnesjum?
Kvennakarfan í Keflavík er mér efst í huga. Allt frá minnibolta upp í meistaraflokk. Við framleiðum körfuboltakonur á færibandi og erum líklega eina liðið á landinu sem framleiðir svona mikið af gæða körfuboltastelpum. Það er hreint ótrúlegt. Það eru ekki mörg lið, ábyggilega ekkert lið sem getur státað sig af því að eiga 11 stelpur af 12 í hverjum leik sem eru uppaldar hjá félaginu, það finnst mér magnað. Þeir sem standa að kvennakörfunni bæði í unglingastarfinu og kvennaráði geta verið virkilega stolt. Mjög óeigingjarnt starf sem unnið er þar á bæ og vel staðið að öllu. Frábærir þjálfarar og framtíðin er mjög björt þar.
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
Það er eiginlega bara eitt sem skýst upp í hugann. Þegar Keflavík datt út í oddaleik í 8-liða úrslitum á móti Stjörnunni í körfunni. Það var grátlegt, við vorum með unninn leik í höndunum.
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
Elvar Már Friðriksson, Arnór Ingvi Traustason og Bryndís Guðmundsdóttir. Svo fannst mér Sara Rún Hinriksdóttir vera efnilegust.
Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
Ég viðurkenni það að ég fylgist nú bara með fótboltanum og körfunni þannig að ég er ekki dómbær á aðrar greinar. En mér sýnist taekwondo-deildin okkar vera að skila frábærum árangri. Ég hef gaman að því þegar ég les í blöðunum að bæjarfélaginu mínu gangi vel.
Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
Ég held að 2014 verði gæfuríkt ár allavega hér í Reykjanesbæ, sérstaklega í körfunni. Ég spái því að mínir menn taki langþráðan Íslandsmeistaratitil og að Húnarnir í Njarðvík verði bikarmeistarar. Ungu stelpurnar í Keflavík eiga eftir að fara langt. Möguleikar Keflvíkinga á að verða Íslandsmeistarar velta á því hvort Birna Valgarðs nái að koma sterk til baka úr meiðslum. Án hennar verður það mjög erfitt.
Fótboltinn verður skemmtilegur báðum megin við lækinn þó ég hallist nú að því að við Keflvíkingarnir eigum eftir að eiga erfitt uppdráttar. Þetta verður þó aldrei í neinni sérstakri hættu og við endum um miðja deild. Ég á mér þó draum að Stjáni nái að leiða okkur í eitthvað bikarævintýri, það er alltof langt síðan við urðum bikarmeistarar. Það verður mikil eftirsjá í Arnóri Ingva sem er frábær drengur og ótrúlegur fótboltamaður. Þó svo að missirinn sé mikill þá getur maður ekki annað en samglaðst honum að vera kominn í mennskuna. Við erum með flottan hóp sem Stjáni er að byggja upp og það tekur tíma. Það kemur alltaf maður í manns stað en ég geri mér grein fyrir því að það mun taka tíma að fylla hans skarð. Það eru spennandi tímar framundan og við þurfum að vera þolinmóð. Ég er gríðarlega sáttur við að Jói „Giggs“ Guðmundsson hafi ákveðið að halda áfram að spila. Hann er gríðarlega mikilvægur hlekkur fyrir uppbygginguna sem á sér stað í liðinu núna og getur eflaust hjálpað þeim yngri mikið. Ég hef fulla trú á strákunum og þeir munu eflaust spila einn skemmtilegasta boltann í deildinni sem gaman verður að fylgjast með. Gummi Steinars vinur minn er tekinn við Njarðvíkingum og verður gaman að fylgjast með honum í sínu fyrsta starfi sem þjálfari. Lítið hægt að spá fyrir um gengi þeirra í sumar því hópurinn mun eflaust breytast mikið þegar nær dregur sumri.