Íþróttaárið 2012: Getum verið stolt af Heiðrúnu
Tinnu Hallgrímsdóttur, framkvæmdarstjóra hjá Þrótti Vogum fannst árangur Heiðrúnar Rósar Þórðardóttur eftirtektaverður á árinu sem var að líða en hún sér mikið af jákvæðum hlutum í gangi í íþróttalífinu hér á svæðinu.
Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2012 á Suðurnesjum?
Það er alltaf gaman að sjá titla lenda hér á Suðurnesjunum, velgengni Njarðvíkurstelpnanna í körfunni er minnisstæðust. Fyrir okkur Þróttara voru þrír viðburðir sem stóðu sérstaklega upp úr. Það var 80 ára afmælishátíðin okkar, vígsla á nýjum og glæsilegum knattspyrnuvöllum og haustmót JSÍ sem við héldum í október síðast liðnum.
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
Vonbrigðin voru eflaust þau að meistaraflokkur Þróttar féll niður í 4. deild. Undirbúningstímabilið lofaði góðu og við styrktum liðið og fengum þjálfara sem var með háleit markmið, en því miður varð þetta niðurstaðan. En að sama skapi var frábær umgjörð sem við buðum upp á og gaman að sjá hve vel var mætt á heimaleiki liðsins.
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
Allir Suðurnesjamenn geta verið stoltir af Heiðrúnu Rós Þórðardóttur sem varð Evrópumeistari í fimleikum á árinu.
Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
Karfan kom mjög sterkt inn, því stóru titlanir í körfunni komu flestir hingað. Síðan er Gummi Júdó er að gera rosalega flotta hluti hjá Njarðvík.
Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
Suðurnesjamenn hafa ávalt verið og verða áfram miklir íþróttamenn. Það verður gaman að fylgjast með öllum deildum frá öllum bæjarfélugum á nýju ári. Við munum sjá fleiri titla hér suður með sjó heldur en á síðasta ári. Það er ég nokkuð viss um.
Það verður gaman að sjá hvernig Reynisliðið verður með Atla Eðvalds í brúnni, einnig verður gaman að sjá hvernig Grindavík verður næsta sumar eftir að hafa fallið úr Pepsí deildinni. Svo auðvitð Keflvíkurliðið með alla þessa ungu stráka.
Ég sé yngri flokka starfið hér í Vogunum halda áfram að vaxa og dafna. Krakkarnir sem eru að æfa júdó hafa verið að standa sig frábærlega vel. Það eru bjartir tímar framundan í fótboltanum og sundinu. Ég er nokkuð viss um að allir vilja bæta sig og gera enn betur á nýju ári. Nýr framkvæmdastjóri tók við síðast liðið haust, stjórnin er tiltölulega ný og foreldrafélag var stofnað á haustmánuðum. Allt þetta fólk leggur mikla áherslu á að styrkja og efla starfið hjá Þrótti og vonandi verður árangurinn betri í framhaldi að því. Einnig er knattspyrnudeild félagsins að vinna gott starf. Við erum búin að vera í miklu uppbyggingarstarfi sem byrjaði árið 2008 með stofnun meistaraflokks og erum við ennþá að vinna eftir þeirri áætlun. Markmiðið er að komast uppúr 4. deildinni næsta sumar, einnig höfum við verið að vinna markvisst í yngriflokkastarfinu hjá okkur að undanförnu. Þá hefur nýja aðstaðan hjálpað okkur gríðarlega í þessu uppbyggingarstarfi. Við Þróttarar erum með markmiðin á hreinu fyrir 2013 og setjum markið hátt.