Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Íþróttaárið 2012: Bjart framundan hjá unga fólkinu
Falur er annan frá vinstri á myndinni.
Sunnudagur 30. desember 2012 kl. 12:23

Íþróttaárið 2012: Bjart framundan hjá unga fólkinu

Falur Daðason formaður sunddeildar ÍRB og sjúkraþjálfari Keflvíkinga í fótboltanum er ánægður með íþróttaárið 2012 en sundlið ÍRB hefur verið sigursælt á árinu eins og undanfarin ár. Hann hrósar góðu unglingastarfi í fótboltanum og körfuboltanum og telur engin sérstök vonbrigði hafa komið upp í heimi íþróttanna á Suðurnesjunum.

Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2012 á Suðurnesjum?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Sundlið ÍRB stóð sig sérstaklega vel á árinu. Þau urðu Aldursflokkameistarar Íslands með miklum mun og margir sundmenn að standa sig virkilega vel á árinu, bæði hér heima og á erlendri grundu.
Svo finnst mér frábært að sjá að Samúel Kári er að gera samning við Reading og er það mikil viðurkenning fyrir það yngriflokkastarf sem verið er að vinna í fótboltanum í Keflavík.“

Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?

„Það eru engin sérstök vonbrigði á árinu. Flestar deildir eru að vinna frábært starf og mikil uppbygging er í íþróttastarfinu hér í Reykjanesbæ.“

Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?

„Davíð Hildiberg Aðalsteinsson stóð sig vel á árinu, komst á Evrópumótið og stóð sig vel þar auk þess sem hann varð Íslandsmeistari í baksundi. Mér fannst Íris Ósk Hilmarsdóttir standa sig vel á árinu en hún varð bæði norðurlandameistari unglinga í 25 og 50 metra laug í 200m baksundi. Árni Már Árnason komst á Ólympíuleikana og er það frábært afrek.“


Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?

„Taekwondo deildin hér í Keflavík er að gera virkilega fína hluti og hafa verið að vinna mikið af Íslandsmeistaratitlum á árinu. Sundið er í mikilli sókn í dag og fínn árangur þar eins og ég sagði áðan.“

Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?

„Sundlið okkar mun halda áfram að gera góða hluti. Uppbyggingastarfið í yngri flokkum í sundinu hjá okkur er frábært þar sem bestu þjálfarar landsins eru við störf og eigum við eftir að sjá marga flotta sundmenn á komandi árum. Það er bjart framundan hjá íþróttafólkinu okkar. Það er mikil og góð uppbygging hjá körfunni í Njarðvík. Það er frábært starf unnið í yngri flokkkum í knattspyrnunni í Keflavík og eigum við eftir að sjá marga unga leikmenn koma upp á næsta ári eins og við höfum verið að sjá á síðustu árum og mun sú uppbygging vonandi halda áfram. Það er því ekki annað hægt að segja en að útlitið sé bjart hjá okkar flotta íþróttabæ hér í Reykjanesbæ.“