Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Íþróttaárið 2011: Framtíðin björt
Fimmtudagur 5. janúar 2012 kl. 09:45

Íþróttaárið 2011: Framtíðin björt

Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkinga í Iceland Express-deild karla í körfubolta segir framtíðina vera bjarta og að ungir íþróttamenn séu að koma sterkir inn á mörgum vígstöðum. Hann fór aðeins yfir íþróttaárið 2011 með vf.is.

Hvað finnst þér standa upp úr í íþróttalífinu á Suðurnesjunum árið 2011?
Frábær árangur yngri flokka UMFN og Keflavíkur í körfunni. UMFN vann þrjá Íslands- og tvö Bikarmeistaratitla og Keflvíkingar unnu allt í kvennakörfunni sem er náttúrulega einstakt.
Annars vorum við Njarðvíkingar mjög stoltir af okkar strákum í drengjaflokki sem urðu Íslands- og Bikarmeistarar á tímabilinu 2010-2011 og fóru í gegnum allt tímabilið án þess að tapa leik, og þeir urðu svo líka Íslandsmeistarar í Unglingaflokki og vinna nú hörðum höndum að því að fóta sig í djúpu lauginni.

Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
Gengi Njarðvíkurliðsins á síðasta tímabili í karlakörfunni var ekki í samræmi við væntingar og það voru líka nett vonbrigði að fótboltaliðið okkar skyldi ekki komast upp í 1.deild aftur.

Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
Ég horfi til Ólafs Helga Jónssonar sem var valinn efnilegasti leikmaður UMFN og átti frábært tímabil, og svo Andri Fannar Freysson sem var langbesti maður UMFN í fótboltanum og ekki síður lykilmaður í drengja- og unglingaflokki UMFN í körfunni þar sem liðið vann þrjá af fjórum stóru titlunum, magnað ár hjá honum. Svo var fulltrúi UMFN í Pepsi deildinni - Óskar Örn Hauksson einfaldlega besti maður deildarinnar þangað til hann meiddist og lykilmaður í því að hans lið varð Íslands- og Bikarmeistari í fótboltanum. Sara Rún Hinriksdóttir kemur fyrst upp í hugann stelpumegin en hún varð fjórfaldur Íslandsmeistari í yngri flokkunum ef mig misminnir ekki og er að stimpla sig hressilega inn á meðal þeirra bestu. Þá er Logi Gunnarsson að standa sig mjög vel í sænsku úrvalsdeildinni í körfunni, bæði síðasta tímabil og það sem af er þessu tímabili og þar er á ferð einstök fyrirmynd fyrir unga leikmenn í körfunni.

Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
Ég nefni þá helst Júdóið í UMFN sem er í sókn undir stjórn Guðmundar Stefáns Gunsa Garms og svo þríþrautina - og að sjálfsögðu körfuna en þar var Keflavík Íslandsmeistari í kvennaboltanum eins og hann leggur sig, Njarðvík fór alla leið í úrslit í fyrsta sinn hjá stelpunum og við áttum flotta fulltrúa í yngri landsliðunum á NM svo e-ð sé nefnt.

Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
Framtíðin er björt í íþróttalífinu á Suðurnesjum. Við eigum fullt af afreksmönnum í hinum ýmsu greinum og ungir íþróttamenn að koma sterkir inn á mörgum vígstöðum. Við Njarðvíkingar erum í ákveðnu uppbyggingarferli í karlakörfunni, og mér sýnist að Keflvíkingar feti þau spor líka í karlafótboltanum undir stjórn Zoran vinar míns og ég er sannfærður um að sú leið skilar sér til lengri tíma. Markið er alltaf sett hátt hér suður með sjó og það er bara skemmtilegt íþróttaár 2012 framundan.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024