Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Íþróttaannáll 2023
Mánudagur 8. janúar 2024 kl. 08:42

Íþróttaannáll 2023

Heiðarskóli vann Skólahreysti – Holtaskóli í öðru sæti

Heiðarskóli stóð uppi sem sigurvegari Skólahreysti 2023 þegar keppt var til úrslita í Laugardalshöll í dag. Holtaskóli hafnaði í öðru sæti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eftir átta keppnir í undanriðlum kepptu tólf skólar til úrslita; Álfhólsskóli, Flóaskóli, Garðaskóli, Heiðarskóli, Holtaskóli, Hvolsskóli, Lágafellsskóli, Laugalækjarskóli, Lundarskóli, Stapaskóli, Vallaskóli og Varmahlíðarskóli. Átta sigurvegarar undanriðlana unnu sér beint rétt í úrslit auk fjögurra uppbótarskóla.

Heiðarskóli vann þrjár greinar af fimm í dag; Alísa Myrra varð þriðja í armbeygjum og þriðja í hangi, Guðlaug Emma Erlingsdóttir og Sigurpáll Magni Sigurðsson unnu hraðaþrautina á tímanum 2:09 og þá gerði Jón Ágúst Jónsson sér lítið fyrir og tók 52 upphífingar og 49 dýfur.

Logi var funheitur á golfvellinum

Logi Sigurðsson úr Golfklúbbi Suðurnesja var heitur í golfinu á síðasta ári, hann varð í annað sinn klúbbmeistari GS, tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í golfi með sigurpútti á lokaflöt Urriðavallar á Íslandsmótinu og endaði sem stigameistari GSÍ 2023.

„Ég var mjög heitur á pútt-ernum. Púttin skópu þennan sigur hjá mér,“ sagði Logi í viðtali eftir sigurinn á Íslandsmótinu þar sem hann lék holurnar 72 á ellefu höggum undir pari en mótsmetið á Íslandsmóti er þrettán undir pari.

Logi sagði það hafa skipt sköpum fyrir sig að hafa pabba sinn, Sigurð Sigurðsson, sem kylfusvein alla dagana en Sigurður varð sjálfur Íslandsmeistari árið 1988.

Tvöfaldur heimsmeistaratitill til Keflvíkings

Keflvíkingurinn Jóhanna Margrét Snorradóttir úr Hestamannfélaginu Mána gerði frábæra hluti á heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem fór fram í Hollandi síðasta sumar. Jóhanna gerði sér lítið fyrir og vann tvöfaldan sigur en hún keppti í fjórgangi V1 og tölti T1. Ekki nóg með að Jóhanna sé keflvísk, heldur er hesturinn sem hún keppti á, Bárður frá Melabergi, ræktaður af Mánafélaga.

Jóhanna Margrét lyfti hinu fræga Tölthorni en þetta er í fjórtánda sinn sem Ísland vinnur þessi verðlaun.

Fyrri titillinn var fjórgangstitillinn en þau verðlaun hlýtur það par sem fær hæstu einkunn samanlagt í fjórgangi og tölti eftir forkeppni.

Í fjórgangi V1 enduðu þau í öðru sæti með einkunnina 8.00, voru grátlega nálægt því að sigra en einungis munaði 0.03 á einkunnum í fyrsta og öðru sæti.

Seinni titill Jóhönnu kom í síðustu grein mótsins sem voru úrslit í tölti T1. Þar komu Jóhanna og Bárður efst inn og enduðu þau sem verðskuldaðir heimsmeistarar með einkunnina 8.94.

Fimm heimsmeistaratitlar og þrenn gala-verðlaun

Lið Team DansKompaní sýndi magnaðan árangur á heimsmeistaramótinu í dansi sem fram fór í Braga í Portúgal síðasta sumar og kom heim með fimm heimsmeistaratitla, tvenn silfurverðlaun og eitt brons. Þar að auki unnu þrjú atriði frá DansKompaní til gala-gullverðlauna, hæstu verðlaunanna sem einungis útvalin siguratriði fá að keppa um innbyrðis.

Massi beðinn um að halda heimsmeistaramót að ári eftir glæsilegt Evrópumót í Njarðvík

Massi, kraftlyftingadeild Njarðvíkur, hélt glæsilegt Evrópumót í september þar sem 101 keppendur tóku þátt. Með þjálfurum og öðru fylgdarliði mættu 160 manns á mótið.

Eftir mót var lokahóf haldið þar sem Ellert Björn Ómarsson og Guðlaug Olsen frá Massa voru kölluð upp og þeim afhentar viðurkenningar og miklar þakkir fyrir virkilega vel skipulagt mót. Umgjörð og skipulag mótsins þótti á heimsmælikvarða og voru þau að lokum beðin um að halda heimsmeistaramót að ári.

Sveindís Jane lék til úrslita  í Meistaradeild Evrópu

Keflvíkingurinn Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði sigurmark Íslands þegar liðið vann 2:1 sigur á Sviss í vináttuleik síðasta vor. Þá lék hún vel með liði Wolfsburg á síðasta ári en hún meiddist í fyrsta leik Wolfsburg á yfirstandandi tímabili og hefur ekkert spilað síðan.

Sveindís skoraði m.a. tvö mörk og lagði upp það þriðja í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar og Wolfsburg vann svo þýska bikarmeistaratitilinn annað árið í röð með 4:1 sigri á Freiburg í úrslitaleiknum.

Þá lagði Sveindís upp opnunarmark Wolfsburg og skoraði svo sjálf gegn Arsenal í fyrri undanúr-slit-aleik liðanna í Meist-ara-deild-inni en Wolfsburg vann einvígið samanlagt og mætti Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu, einum stærsta íþróttaviðburði veraldar.

Úrslitaleikurinn var stórskemmtileg viðureign tveggja af bestu liðum Evrópu en Wolfsburg tapaði leiknum 3:2 eftir að hafa leitt 2:0 í hálfleik, súrt fyrir Sveindísi og liðsfélaga hennar.

Ingibjörg Noregsmeistari

Grindvíkingurinn Ingibjörg Sigurðardóttir varð Noregsmeistari í knattspyrnu með liði sínu Vålerenga eftir 3:1 sigur á Stabæk í lokaumferðinni.

Ingibjörg hefur verið fyrirliði liðsins og með bestu leikmönnum norsku deildarinnar frá árinu 2019 en þrátt fyrir fyrir frábæra frammistöðu á þessum fjórum árum var henni ekki boðinn nýr samningur og er því á förum frá Vålerenga eftir fjögurra ára dvöl.

Upp og niður tímabil í fótboltanum

Bæði karla- og kvennalið Keflavíkur áttu erfitt uppdráttar síðasta sumar. Keflavík hóf tímabilið á sigri í Bestu deild karla en þurfti að leika 23 umferðir til að landa næsta sigri. Að lokum varð það hlutskipti Keflvíkinga að falla og munu því leika í Lengjudeildinni á þessu ári. Keflavík hélt hins vegar naumlega sæti sínu í Bestu deild kvenna og réðist það ekki fyrr en í lokaumferðinni þegar Keflavík vann mikilvægan sigur á Selfossi.

Grindavík og Njarðvík áttu sömuleiðis í vandræðum í Lengjudeild karla en bæði lið höfðu þjálfaraskipti á tímabilinu og björguðu sér frá falli undir það síðasta. Njarðvíkingar björguðu sér með minnsta mun en einungis munaði einu marki á Njarðvík og Selfossi sem féll. Grindavík sigldi lygnan sjó í Lengjudeild kvenna og var um miðja deild, endaði í sjötta sæti.

Þróttur náði ekki að endurheimta sæti sitt í næstefstu deild en liðið hafnaði í fjórða sæti annarrar deildar, fjórum stigum frá því að komast upp og náði sínum fjórða besta árangri í sögu félagsins. 

Tveir deildarmeistaratitlar fóru til Suðurnesja á síðasta tímabili en Reynismenn urðu deildarmeistarar þriðju deildar og RB vann Kríu í úrslitaleik fimmtu deildar.

Víðismönnum mistókst að vinna sig upp í aðra deild en lengi vel voru Reynir og Víðir á toppi þriðju deildar. Víðir endaði að lokum í fjórða sæti. Víðismenn fóru samt ekki tómhentir inn í veturinn því þeir stóðu uppi sem sigurvegarar í Fótbolti.net-bikarnum, bikarkeppni neðri deilda, sem var leikinn í fyrsta sinn á síðasta ári. Víðir mætti KFG í úrslitaleik á Laugardalsvelli og vann frækinn 2:1 sigur og urðu fyrsta liðið til að lyfta bikarnum.

Körfuknattleikstímabil karla 2023

Keflavík leiddi Subway-deild karla lengst af en tók að fatast flugið eftir því sem á leið. Að lokum höfnuðu Keflvíkingar í fjórða sæti deildarkeppninnar en voru slegnir út af Tindastóli í átta liða úrslitum. Njarðvíkingar enduðu í öðru sæti deildarinnar en líkt og Keflavík voru þeir slegnir út af Stólunum í undanúrslitum.

Grindvíkingar náðu sér ekki á flug í deildarkeppninni og enduðu í sjöunda sæti. Þeir mættu Njarðvík í átta liða úrslitum þar sem þeir þurftu að láta í minni pokann.

Keflavík og Njarðvík mættust í átta liða úrslitu VÍS-bikarsins og þar höfðu Keflvíkingar betur, Grindavík féll út eftir tap fyrir Val. Keflvíkingar féllu út í undanúrslitum með tapi fyrir Stjörnunni.

Körfuknattleikstímabil kvenna 2023

Keflvíkingar áttu mjög gott tímabil í Subway-deild kvenna á síðasta tímabili og tryggðu sér deildarmeistaratitilinn. Njarðvíkingar höfnuðu í fjórða sæti og það voru því deildarmeistarar Keflavíkur og ríkjandi Íslandsmeistarar Njarðvíkur sem mættust í fjögurra liða úrslitum úrslitakeppninnar. Grindvíkingar misstu hins vegar af lestinni um sæti í úrslitakeppninni.

Keflavík hafði betur gegn Njarðvík og mætti Val í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn en þar höfðu Valskonur betur.

Svipaða sögu var að segja í VÍS-bikarkeppni kvenna. Eins og hjá körlunum mættust Keflavík og Njarðvík í átta liða úrslitum þar sem Keflavík hafði betur. Grindvíkingar töpuðu fyrir Haukum og féllu því úr keppni í átta liða úrslitum eins og karlaliðið.

Keflavík vann Stjörnuna í undanúrslitum og mætti Haukum í úrslitaleik. Þar sýndu Haukar talsverða yfirburði og því rann titill númer tvö naumlega úr höndum Keflvíkinga.

Sara Rún og Elvar Már eru körfuknattleiksfólk ársins

Keflvíkingurinn Sara Rún Hinriksdóttir var valin körfuknattleikskona ársins fjórða árið í röð og Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson hlaut nafnbótina körfuknattleiksmaður ársins þriðja árið í röð.

Sara Rún er uppalin með Keflavík og lék í háskólaboltanum í Bandaríkjunum samhliða námi. Hún átti gott tímabil í fyrra með liði sínu á Ítalíu, Faenza Basket Project í Serie A. Þaðan gekk hún til liðs við Cadi La Seu sem leikur í efstu deild á Spáni en liðið keppir einni einnig í FIBA EuroCup Women.

Sara Rún hefur verið burðarás íslenska kvennalandsliðsins að undanförnu og verið í stóru hlutverki í vörn og sókn. Hún undirstrikaði mikilvægi sitt í fræknum sigri gegn Rúmeníu í lok síðustu undankeppni en þar skoraði hún 33 stig og setti um leið íslenskt landsliðsmet leikmanns í einum leik í sögu íslensku karla- og kvennalandsliðanna í körfuknattleik.

Elvar Már lék vel á síðustu leiktíð með stórliði Rytas Vilnius í Litháen og eftir tímabilið gekk hann til liðs við PAOK í Grikklandi þar sem hann hefur leikið mjög vel og er einn af mikilvægustu leikmönnum liðsins.

Með íslenska landsliðinu hefur Elvar Már verið leiðtogi liðsins í gegnum langa forkeppni og undankeppni að HM 2023 sem lauk í febrúar og hefur hann tekið þátt í öllum leikjum liðsins á undanförnum árum fyrir utan einn leik vegna meiðsla og heilt yfir verið meðal bestu manna liðsins. Hann átti stóran þátt í því að koma liðinu inn í riðlakeppni HM og svo þaðan áfram í aðra umferð í þeirri keppni sem var stórt afrek.

Magnaður Elvar Már – Sá þriðji í sögu Meistaradeildarinnar sem nær þrefaldri tvennu

Elvar Már átti frábæran leik með gríska liðinu PAOK þegar þeir lögðu Galatasaray frá Tyrklandi 77:88 á heimavelli Tyrkjanna í Meistaradeildinni í körfuknattleik í haust.

Elvar var með þrefalda tvennu í leiknum en hann er einungis þriðji leikmaðurinn í sögu Meistaradeildarinnar til að afreka það og sá fyrsti sem nær því á útivelli. Elvar var með nítján stig í leiknum, ellefu fráköst og gaf tíu stoðsendingar.

Frábært sund ár hjá Guðmundi Leo

Guðmundur Leo Rafnsson stal senunni í sundi á síðasta ári en hann tók þátt í Smáþjóðaleikunum, Evrópumóti unglinga og nú síðast Norðurlandamótinu. Á Smáþjóðaleikunum í byrjun sumars sló hann sex ára gamalt met í 4 x 100 metra fjórsundi karla með karlasveit Íslands og Guðmundur gerði enn betur á Norðurlandamótinu þar sem hann varð Norðurlandameistari í 200 metra baksundi og bætti tíma sinn um tæpa sekúndu þegar hann synti á tímanum 1:57,33. Þá vann hann einnig silfurverðlaun í 100 metra baksundi. Guðmundur var einnig í sveit Íslands sem hafnaði í fimmta sæti í 4 x 200 metra skriðsundi á Norðurlandamótinu.

Þá klæddi sundkappinn Már Gunnarsson sig aftur í sundskýluna og þátt í keppni á heimsmeistaramótinu sem fór fram í Manchestar á Englandi.

Már hafði lagt keppnissundið til hliðar árið á undan til að einbeita sér að tónlistarferlinum en sundið hefur alla tíð spilað stóran þátt í hans lífi og það er hægara sagt en gert að hætta.

Már stóð sig vel á heimsmeistaramótinu þar sem hann keppti í úrslitum í 100 metra baksundi og synti alveg við sinn besta tíma en tími Más var 1:10,72 og endaði hann í sjötta sæti.

Már hefur sett stefnuna á Ólympíuleikana í París á þessu ári þar sem hann hefur þegar tryggt sér keppnisréttinn. Már þarf hins vegar að skora hærra á heimslistanum til að verða valinn til þátttöku.