Íslensku öldungarnir í góðum málum í Leirunni
Þeir Sigurður Albertsson og Páll Bjarnason léku á tveimur yfir pari, 74 höggum sem var þriðja besta skor dagsins. Sigurjón R. Gíslason og Guðmundur Valdimarsson voru á 76 höggum og er án forgjafar liðið í 3. sæti á samtals 150 höggum, fjórum á eftir Svisslendingum sem leiða á 146 höggum. Spánverjar eru í 2. sæti á 148 höggum. Tvö bestu skor af þremur í hverju liði telja. Þeir Jens og Björn Karlssynir léku ekki vel í gær og komu inn á 85 höggum og töldu ekki.
Íslenska liðið með forgjöf er í 2.-3. sæti með 85 punkta. Júlíus Sólnes, fyrrverandi umhverfisráðherra og félagi hans Jón H. Ólafsson leiða íslenska liðið með 44 punkta en hinir tveir liðshóparnir voru báðir með 41 punkt, þeir Elías Magnússon og Friðbjörn Hólm og þeir Alfreð Viktorsson og Ásgeir Nikulásson. Finnska liðið leiðir með 86 punkta en Norðmenn eru með sama punktafjölda og Ísland í 2.-3. sæti.
Keppnisfyrirkomulag á 2. degi er eftir svokölluðu „Greensome“ fyrirkomulagi. Tveir eru saman í liði og síðan er valið betra upphafshöggið. Síðan slá menn annað hvert högg eftir það. Á morgun á þriðja og síðasta keppnisdegi er leikinn einstaklins höggleikur með og án forgjafar.
Mörg góð tilþrif hafa sést í Leirunni og útlendingarnir eru mjög ánægðir með völlinn og aðrar aðstæður þó svo hljóðið í þeim í morgun hafi ekki verið eins gott þegar þeir mættu í hífandi rok og rigningu sem þó var ekki stöðug í morgun.
Páll Bjarnason slær á 4. teig í Leirunni í gær. Að neðan má sjá íslensku liðin og á neðstu mynd er golfskálinn í Leiru. Á efstu myndinni er Júlíus Sólnes að slá á 11. braut og á myndinni þar fyrir neðan er Elías Magnússon að pútta á 18. flöt. Kylfingsmyndir/pket.