Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Íslendingar skapgóðir húmoristar
Carla Garcia Jurado.
Sunnudagur 13. júlí 2014 kl. 09:00

Íslendingar skapgóðir húmoristar

Kennir júdó og annast tvíbura.

 

Hin 23 ára Carla Garcia Jurado hefur bæst í þjálfarateymi júdódeildar UMFN. Carla kemur frá bænum Cambrils, suður af Barcelona á Spáni, þar sem hún hefur æft frá því hún var sex ára og hefur því mikla reynslu í íþróttinni. Þá hefur Carla unnið til fjölda verðlauna á meistaramótum á Spáni. Júdódeildin mun í sumar bjóða upp á námskeið sem eingöngu er ætlað konum og unglingum sem ekki hafa komið nálægt bardagaíþróttum.
 
 
Annast tvíburadrengi og kennir júdó
Carla hefur dvalið á Íslandi í mánuð og þetta er í fyrsta skipti sem hún kemur til Íslands. Hún er ekki eingöngu að þjálfa júdó heldur er hún au pair hjá Guðmundi Stefáni Gunnarssyni, júdóþjálfara, og Eydísi konu hans. „Ég annast tvíburadrengina þeirra, sem eru eins og hálfs árs, á virkum dögum og um helgar stefni ég á að kanna og kynna mér marga ólíka staði á Íslandi. Mér finnst Ísland mikið fyrirmyndarland fyrir allan heiminn,“ segir Carla og bætir við að síðan hún kom hafi land og þjóð vakið mikla aðdáun hjá henni. „Náttúran og fyrirbærin sem þar er að finna, langir dagar, bjartar nætur og fólkið sem hér býr. Ég læri nýja hluti daglega. Það er eins og að komast í annan heim að ferðast um land elda og íss. Það er töfrum líkast.“
 
Íslendingar skapgóðir og þolinmóðir húmoristar
Carla segir Íslendinga sem hún þekki vera mjög opna og vinalega miðað við aðrar þjóðir. „Þeir eru alltaf til í að hjálpa og þeir gera dvöl mína svo ógleymanlega. Það sem þó er best við þá er að þeir eru aldrei í vondu skapi og hafa alltaf tíma fyrir húmor og eru mjög þolinmóðir.“ Áður en Carla kom til landsins vissi hún að það væri í Norður-Evrópu, þar sem sólin sest aldrei á sumrin en á veturna væri aðeins bjart í örfáa klukkutíma. Svo vissi hún um byltinguna í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. „Ég bjóst aldrei við að ég myndi ferðast til eins af bestu stöðum sem ég gæti ímyndað mér,“ segir Carla. 
 
Birtan og matarvenjur ólíkari en heima 
Spurð um hvað sé helst ólíkt með Íslandi og Spáni segir hún það vera nánast allt; Veðrið, tungumálið, maturinn, dagskráin, tollarnir, stórmarkaðarnir, fólkið og landslagið. „Ég er enn í hálfgerðu aðlögunarferli því síðan ég kom hefur allt verið nýtt fyrir mér. Það sem kom mest á óvart var að hægt er að njóta dagsins á sumrin í nánast 24 tíma á sólarhring, ég elska það! Það sem hefur verið erfiðast er tíminn og máltíðirnar. Á Spáni borðum við fimm máltíðir yfir daginn og í eftirmiðdag borðum við stærri máltíðir en Íslendingar gera. En ég nýt þess að smakka allt sem ég hef ekki smakkað áður.“
 
Vantar ekki kennara á Spáni 
Eftir að Carla útskrifaðist á síðasta ári með BS gráðu í íþróttum og hreyfingu krækti hún sér í kennsluréttindi. „Eins og er er engin eftirspurn eftir kennurum á Spáni svo að síðasta ár hef ég tileinkað líf mitt því að þjálfa, kenna og keppa í júdó í ólíkum skólum á svæðinu. Ég er með svarta beltið í júdó og byrjaði að æfa það sex ára,“ segir hún. Ástæða þess að Carla ákvað að gerast au pair á Íslandi er að hún vildi bæta enskukunnáttuna sína. „Svo elska ég börn og að kanna nýja staði og ég held því að þetta verði góð reynsla. Eins og er gengur allt mjög vel. Ég er mjög heppin að vera hjá svona yndislegri fjölskyldu sem lætur mér finnast ég vera svo velkomin,“ segir Carla ánægð að lokum.
 
VF/Olga Björt
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024