Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ísleifur og María sigurvegarar í síðasta móti Rastarinnar
Fimmtudagur 18. janúar 2007 kl. 15:53

Ísleifur og María sigurvegarar í síðasta móti Rastarinnar

Kaflaskil urðu í starfi Púttklúbbs Suðurnesja í dag þegar síðasta púttmót klúbbsins fór fram í Röstinni í Reykjanesbæ. Púttklúbburinn hefur haft aðstöðu í Röstinni síðan 1990 eða í 17 ár. Ísleifur Guðleifsson og María Einarsdóttir urðu hlutskörpust í þessu síðasta móti sem kallað var Stuðlabergsmótið.

 

Nýir eigendur Rastarinnar vildu fá greidda hærri leigu fyrir húsnæðið þar sem Púttklúbburinn hafði aðstöðu en klúbburinn var ekki í stakk búinn til þess að verða við þeim kröfum. Starfið mun þó ekki bíða neina hnekki því ráðgert er að starf Púttklúbbs Suðurnesja haldi áfram í H.F. við Hafnargötu þar sem Golfklúbbur Suðurnesja hefur aðstöðu.

 

Fjölmargir tóku þátt í Stuðlabergsmótinu í dag og var keppnin spennandi allt frá upphafi til enda. Ísleifur Guðleifsson varð hlutskarpastur í karlaflokki á 62 höggum og með 12 bingó eða holur í höggi. Í kvennaflokki var það María Einarsdóttir sem var í fyrsta sæti á 62 höggum og setti hún niður alls 14 bingó.

 

Sérstök verðlaun eru veitt fyrir flest bingó í mótum á vegum Púttklúbbsins og þurftu þeir Ísleifur og Jóhann Alexandersson að útkljá það í bráðabana hvor færi með sigur af hólmi og hlyti bingóverðlaunin. Á fyrstu holu settu þeir báðir niður bingó og var mikil spenna í salnum. Á annarri holu voru þeir báðir með par en á þriðju holunni reyndist Jóhann sterkari þegar Ísleifur varð að sætta sig við skolla en Jóhann tryggði sigurinn á öruggu pari.

 

Það kom í hlut Þorkels Indriðasonar og Gerðu Halldórsdóttur að taka síðustu keppnispúttin í Röstinni. Að móti loknu tók við verðlaunaafhending þar sem margt var um veglega vinninga. Dregið var úr skorkortum og hlutu fjölmargir skemmtilegar og góðar gjafir við það tilefni. Að lokum var svo blásið til veglegrar kaffiveislu og sögðu félagar í Púttklúbbnum að mikil eftirsjá væri í Röstinni en engu að síður myndu þeir halda áfram sínu góða starfi í H.F. að Hafnargötu.

 

Úrslit Stuðlabergsmótsins:

 

Karlaflokkur:

Ísleifur Guðleifsson – 62 högg og 12 bingó

Guðmundur Ólafsson – 63 högg

Jóhann Alexandersson – 64 högg

 

Kvennaflokkur:

María Einarsdóttir – 62 högg 14 bingó

Regína Guðmundsdóttir – 65 högg

Hrefna Ólafsdóttir – 66 högg

 

Bingóverðlaun:

María Einarsdóttir – 14 bingó

Jóhann Alexandersson – 12 bingó, lagði Ísleif í bráðabana um bingóverðlaunin.

 

Mynd 1: María og Jóhann með bingóverðlaunin.

Mynd 2: Sigurvegarar í karlaflokki, Ísleifur fyrir miðju.

Mynd 3: Sigurvegarar í kvennaflokki, María fyrir miðju.

 

VF-myndir/ [email protected]

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024