Íslandsmótinu fer að ljúka og spennan magnast
Það er að líða að lokum Íslandsmótsins í knattspyrnu en það getur brugðið til beggja vona á flestum vígstöðvum. Spennan er mikil hjá flestum Suðurnesjaliðanna sem eru ýmist í topp- eða botnbaráttunni hvert í sinni deild.
Keflvíkingar í þokkalegum málum
Þegar þrjár umferðir eru eftir af Pepsi Max-deild karla eru Keflvíkingar í níunda sæti með átján stig. Það er mikil spenna milli liðanna í neðstu sætunum en neðstir eru Skagamenn (12 stig), þar fyrir ofan er Fylkir (16 stig) og svo HK í sætinu fyrir neðan Keflavík (17 stig). Næstu lið fyrir ofan Keflavík eru Leiknir og Stjarnan (bæði með 22 stig).
Keflvíkingar eru í ágætis stöðu eins og staðan er nú en mega samt ekki við því að misstíga sig á lokametrunum.
Keflavík á eftir að spila heimaleik gegn KR (4. sæti), útileik gegn Leikni (8. sæti) og lokaleikurinn verður gegn ÍA (12. sæti) á HS Orkuvellinum.
Mikilvæg stig gegn Tindastóli
Í Pepsi Max-deild kvenna er svipaða sögu að segja. Keflvíkingar er ekki í fallsæti en þær eru í þriðja neðsta sæti með sextán stig þegar tveir leikir eru eftir. Þar fyrir neðan eru Fylkir (13 stig) og Tindastóll (11 stig). Þá eru næstu lið fyrir ofan Keflavík Þór/KA (18 stig) og ÍBV (19 stig).
Keflavík mætir Val í næstu umferð á Hlíðarenda en Valskonur eru þegar búnar að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Lokaleikur Keflavíkur verður heimaleikur gegn Þór/KA.
Keflvíkingar bættu stöðu sína til muna með góðum 0:1 sigri á Tindastóli fyrir norðan í síðasta leik og á sama tíma náði Fylkir aðeins jafntefli.
Lánlausir Grindvíkingar
Grindvíkingar eru væntanlega mjög ósáttir með gengi sitt í Lengjudeild karla í ár en það virðist ekkert hafa fallið með þeim í sumar. Stefna þeirra var að komast upp í efstu deild en þeir sitja nú í áttunda sæti með 23 stig.
Grindavík er um miðja deild og fer hvorki upp né niður en nú er bara spurning fyrir Grindvíkinga að rífa sig í gang og fara að vinna leiki fyrir sálina.
Þeir leikir sem Grindavík á eftir eru gegn toppliði Fram á heimavelli um næstu helgi, þá mæta þeir Aftureldingu í Mosfellsbænum og enda á heimavelli gegn Víkingi Ólafsvík.
Eru á góðu róli núna
Kvennalið Grindavíkur hefur bætt stöðu sína á seinni hluta Lengjudeildar kvenna en þær voru lengst af í neðsta sæti. Það var ekki fyrr en í tólftu umferð að hlutirnir fóru að ganga upp hjá þeim og þær unnu sig upp í þá stöðu sem þær eru í núna. Grindavík er samt ekki alveg sloppið fyrir horn því mjög stutt er milli neðstu liða, Augnablik er á botninum (11 stig), ÍA í næstneðsta sæti (14 stig), þá kemur HK (15 stig) og Grótta er jafnt Grindavík að stigum (16 stig) en með talsvert lakari markamun.
Síðustu tveir leikir verða gegn HK (8. sæti) heima og Víkingi (4. sæti) á útivelli í lokaumferðinni.
Snúin staða í annarri deild karla
Í annarri deild karla er allt í hnút á toppnum. Toppliði Þróttar misstókst að tryggja sér sæti í næstefstu deild í síðustu umferð þegar þeir töpuðu fyrir Völsungi á útivelli. Þróttur fékk á sig slysalegt mark snemma í leiknum en Völsungur missti mann út af skömmu síðar. Þrátt fyrir að vera manni fleiri lungann úr leiknum og sækja stíft tókst Þrótturum ekki að skora og norðanmenn héldu fengnum hlut. Þeir eru nú komnir í annað sæti, tveimur stigum frá Þrótti.
Þegar þrjár umferðir eru eftir í annarri deild hefur Þróttur 38 stig í efsta sæti. Næstu lið eru Völsungur (36 stig), KV (34 stig) og Njarðvík (32 stig). Reynismenn sigla lygnan sjó í áttunda sæti með 26 stig og hafa tryggt sér áframhaldandi veru í deildinni.
Þróttarar eru með pálmann í höndunum og Njarðvíkingar eygja enn von um að vinna sig upp um deild. Úrslitin gætu ráðist í síðustu umferðinn þar sem Þróttarar leika gegn KV (3. sæti) og Njarðvík gegn Völsungi (2. sæti). Það eru því mjög spennandi lokaumferðir framundan í deildinni eins og hjá flestum Suðurnesjaliðunum.
Síðustu leikir Suðurnesjaliðanna í annarri deild eru þessir:
Kári - Þróttur, Njarðvík - Reynir, Þróttur - Magni, Leiknir F. - Njarðvík Reynir - Fjarðabyggð, KV - Þróttur, Njarðvík - Völsungur og ÍR - Reynir.
Víðismenn áfram í þriðju deild
Víðismenn munu leika áfram í þriðju deild á næsta ári en þeir fóru ekki vel af stað í deildinni. Víðir er í áttunda sæti með 25 stig og á fjóra leiki eftir óleikna, af þeim er frestaður leikur úr fimmtándu umferð.
Víðir og Dalvík/Reynir eru jöfn að stigum (25 stig) og eiga bæði leik til góða en liðin fyrir neðan þau eru öll búin með nítján leiki. Þau eru; Augnablik (22 stig), ÍH (17 stig), Einherji (16 stig) og Tindastóll (14 stig).
Lokaleikir Víðis eru gegn Tindastóli heima, KFG úti, Augnabliki heima og Einherja úti.