Íslandsmótið í Leiru: Birgir Leifur á 3 undir eftir 9 holur
Birgir Leifur Hafþórsson, Íslandsmeistari úr GKG, er á þremur höggum undir pari eftir níu holur á Íslandsmótinu í golfi sem fram fer á Hólmsvelli í Leiru. Ólafur Már Sigurðsson, GK, er með honum í holli og er hann á einu höggi undir pari eftir níu holur og Sigurþór Jónsson úr GK er á einu höggi yfir pari. Sigurþór var nálægt því að fá albatross á 18. holu, boltinn rúllaði á holubarminum og stöðvaðist 15 sentímera frá holu. Hann nældi sér í auðveldan örn.
Björgvin Sigurbergsson úr GK er að leika vel og er á tveimur höggum undir pari eftir tíu holur. Heiðar Davíð er með forystu í mótinu af þeim sem hafa lokið leik, spilaði hringinn á 67 höggum, eða 5 höggum undir pari sem er vallarmet af hvítum teigum. Ingi Rúnar Gíslason úr GKJ er í öðru sæti á 70 höggum. Enn er um helmingur keppenda úti á velli að spila og eiga eftir að ljúka leik.
Allt um mótið á www.kylfingur.is
Mynd/Kylfingur.is: Birgir Leifur Hafþórsson sækir nú að Heiðari Davíð, sem lauk leik á 5 höggum undir pari.