Íslandsmeistari í þremur íþróttagreinum
Björn Lúkas Haraldsson er 16 ára strákur úr Grindavík sem æfir bardagaíþróttir. Hann æfir júdó, Taekwondo og Brasilískt Jui Jitsu (BJJ) nánast alla daga vikunnar. Hann hefur meðal annars unnið til þess afreks að verða Norðurlandameistari 15-16 ára síðastliðin tvö ár í –81 kg flokki í júdó. Hann er rólyndis unglingur og virðist vera með hausinn rétt skrúfaðan á. Hann telur að það sé lykilatriði til þess að ná langt í bardagagreinum. „Það er mjög mikilvægt að hafa hausinn í lagi ef þú ætlar að ná langt í bardagaíþróttum. Bara það að sjá hvernig hlutirnir virka, skilja tæknina, því tæknin yfirbugar alltaf styrkinn,“ segir Lúkas eins og hann er jafnan kallaður. Hann hóf að æfa júdó þegar hann var 6 ára gamall en hann telur að hann hafi verið ansi líflegur sem barn. „Svo vex þetta af mér og ég róast með árunum, mest af orkunni fór líka í æfingar og þar fékk maður útrás.“
Auk þess að vera Norðurlandameistari í júdó þá er Lúkas Íslandsmeistari í greininni. Einnig er hann Íslandsmeistari í -88 kg flokki 14-17 ára í Brasilísku Jui Jitsu síðastliðin tvö ár og svo varð hann Íslandsmeistari í Taekwondo líka. Hann gerði sér lítið fyrir á dögunum og krækti sér í brons á opna Norðurlandamótinu í brasilísku Jiu Jitsu í sínum þyngdarflokki en hann fékk undanþágu til að keppa á mótinu sem er fyrir fullorðna.
Mikil hefð er fyrir júdó í Grindavík og telur Lúkas að flestir hafi á einhverjum tímapunkti prófað íþróttina. Hann telur deildina vera mjög sterka miðað við hve fáir búi í bænum og reglulega komi þaðan sterkir júdómenn.
Hann prófaði að æfa fótbolta og sund um hríð en segist hafa fundið sig best í bardagaíþróttunum. Annars mælir hann með því að krakkar prófi sem flestar íþróttagreinar. „Það eru mjög margir ungir krakkar sem eru gríðarlega efnilegir hér á Suðurnesjum en aðal málið er að mæta vel á æfingar, það þarf til þess að ná lengra.“ Lúkas segir það vel getað passað að margir krakkar sem ekki finni sig í hinum hefðbundnu og vinsælli íþróttum finni sig vel í bardagaíþróttum og að þetta geti hentað öllum.
Hefur alla burði til þess að ná langt
Lúkas er á því að hann hafi andlega þáttinn í lagi. „Það er ekkert vesen í kringum mig og ég er rólegur að eðlisfari. Ég geri í raun lítið annað en að fara á æfingar, borða og sofa.“ Þjálfarar Lúkasar bera honum afar vel söguna og telja að þarna sé eitthvert mesta efni okkar Íslendinga á ferðinni í bardagaíþróttum. Einn af þjálfurum Lúkasar er Helgi Rafn Guðmundsson en hann hefur að vissu leyti tekið strákinn undir sinn verndarvæng. „Helgi er alger snillingur. Bæði er hann frábær þjálfari og líka alveg frábær manneskja. Ég kynntist honum þegar ég var 11-12 ára þegar hann byrjaði að þjálfa Tae Kwondo í Grindavík. Ég byrja svo í Jui Jitsu í gegnum hann.“ Lúkas æfir alla virka daga og oft kemur það fyrir að hann þurfi að keppa margar helgar í röð. Þegar blaðamaður spyr svo þjálfara Lúkasar um möguleika hans í framtíðinni þá eru þeir á því að hann hafi alla burði til þess að ná langt. Hann sé með hausinn algerlega í lagi og sterkur og vel samhæfður miðað við ungan aldur. Hann sé í flokki okkar allra efnilegustu bardagakappa.
Stefnir á blandaðar bardagaíþróttir
Ef þú ættir nú að velja eina af þessum þremur greinum, hver yrði þá fyrir valinu? „Það er erfitt að segja. Mig langar helst að halda áfram í þeim öllum og stefnan er sem sagt að komast í blandaðar bardaga-íþróttir (MMA) þar sem allar þessar greinar nýtast mér vel. Ég fór til Tælands síðasta sumar og dvaldi þar í 5 vikur. Á þeim tíma prófaði ég blandaðar bardagaíþróttir og afbrigði af sparkboxi og fann mig gríðarlega vel í þeim greinum. Allt sem ég hafði lært hérna í Grindavík og Keflavík nýttist mér vel.“
Lúkas er á því að bardagaíþróttir fái ekki mikla athygli hérlendis. „Það er ekki mikið fjallað um þessar greinar og fæstir þekkja þá sem skara framúr í júdó, teakwondo og Jui jitsu. Íslendingar eiga þó mikla íþróttahetju, sem er Gunnar Nelson og hann þekkja flestir. Hann er maður sem ég lít upp til og er hann fyrirmyndin mín í dag.“
„Ég vil meina að í þessum íþróttum gildi þetta svokallaða glímuþol. Það þjálfarðu bara með því að glíma. Þú sérð þessa vöðvaköggla sem hafa verið að lyfta endalaust, svo koma þeir hingað á æfingu og eru búnir á því eftir skamma stund. Það er alveg sérstakt þol sem þarf til að vera góður að synda og svo á sama hátt í hlaupum, ég vil meina að þetta sé þriðja útfærslan á þoli,“ segir Lúkas en þeir sem hafa prófað slíkar greinar vita að það er ekkert grín að glíma eða boxa, þolið hverfur um leið.
Hann hefur verið að glíma töluvert við sér sterkari og þyngri fullorðna menn en hann telur það hafa gengið vel. Hann varð m.a. í 2. sæti á Mjölnir Open móti á dögunum þar sem hann keppti í fullorðinsflokki. „Þar eru menn sem eru reynslumeiri og með betri tækni en ég trúi því að ég geti alveg sigrað þá. Með tíma og miklum æfingum þá held ég að þetta komi á endanum. Sjáum bara til hvort að ég sigri þessa opnu flokka á endanum,“ segir hann hógvær.
Lúkas er með brúnt belti í júdó, en það er næst á undan svarta beltinu sem er æðsta stig. Hann stefnir á að ljúka við svarta beltið fyrir næsta sumar. Í Taekwondo er hann með þriðju gráðu rautt belti, en það er þriðja æðsta beltið í greininni. í Brasilísku Jui Jitsu er hann svo með blátt belti. Stefnan er að ná svörtum beltum í öllum þessum greinum en Lúkas er ekki að flýta sér um of. „Ég ætla að einbeita mér að því að klára júdóið fyrst og svo hin tvö í framhaldinu.“ Það er ekki algengt að menn séu með svört belti í öllum þremur greinunum og Lúkas veit ekki til þess að svo sé hérlendis.
Verður lögga ef allt klikkar
Lúkas hefur verið opinn fyrir því að prófa hinar ýmsu bardagagreinar og hefur hann fundið sig ágætlega í þeim öllum. „Box, karate eða muay tai eru greinar sem ég hef prófað og þar er ég að standa í aðal mönnunum, ég er bara mjög sáttu með það.“ Þó hefur hann ekki hug á því að bæta við sig fleiri greinum, fyrst þarf að klára skólann. „Ég er á löggjæslu- og björgunarbraut í FS og ætla mér í lögregluskólann að því loknu. Þannig að varaáætlunin er að fara í lögguna ef að atvinnumennskan klikkar,“ segir hann og hlær.
Færðu einhverja sérstaka athygli frá jafnöldrum þínum vegna árangurs þíns og vegna þess að þú ert að æfa þess tegund af íþróttum? „Nei ekkert sérstaklega. Þeir óska mér alveg til hamingju með það ef mér gengur vel en annars er ég engin hetja í þeirra augum. Það kemur fyrir að fólk forvitnist um það sem ég er að gera og það hefur alveg endað með því að ég hef fengið það til að mæta á æfingar og prufa.“
Lúkas segir að til þess að ná svona árangri og til þess að geta æft vel þá þurfi að vera sterkt lið á bak við mann. „Ég gæti ekki gert þetta án foreldra minna og ömmu og afa. Eins hefur Teresa frænka mín verið frábær og auðvitað þjálfararnir mínir, þau Helgi, Jói, Rut og Ármann. Það er mikill stuðningur á bak við mig.“
„Það kemur alveg fyrir að maður sé að æfa 3-4 sinnum á dag en annars geri ég lítið af aukaæfingum til þess að þjálfa þrekið. Ég hef aðeins lyft í skólanum en ég ætla að einbeita mér að því að ná tækninni áður en ég bæti styrkinn.“
Mikilvægt er að lifa heilbrigðu líferni í þessum íþróttum sem og öðrum og Lúkas segist hafa eflst til muna með því að breyta matarvenjum sínum nú fyrir skömmu. „Ég gjörbreytti mataræðinu mínu fyrir tveimur mánuðum og síðan þá finn ég heiftarlegan mun. Ég hætti að drekka gos og hvítt brauð og alls kyns ruslfæði sem ég lét ofan í mig áður. Síðan þá er ég með mun meiri orku, meira þol og snerpu. Allt er hreinlega betra og þessi breyting tók mig alveg á næsta stig.
Lúkas hvetur svo að lokum alla til þess að prófa einhverja af þessum þremur íþróttum en hann segir þær vera nánast hættulausar og hver sem er geti haft gaman af. „Það eru sennilega mun meiri meiðsli í fótbolta heldur en hjá okkur. Það kemur örsjaldan fyrir að einhver meiðist hjá okkur.“