Íslandsmeistararnir munu leika í Sláturhúsinu
Njarðvíkingar fengu ekki leyfi hjá Körfuknattleikssambandi Evrópu til þess að leika heimaleiki sína í Evrópukeppninni í vetur í Ljónagryfjunni. Þess í stað munu þeir leika heimaleiki sína í Sláturhúsinu í Keflavík.
Þetta varð ljóst þegar fulltrúar sambandsins sáu myndir úr Ljónagryfjunni og töldu hana vera slysagildru þar sem að lágmarki tveir metarar þurfa að vera frá velli í áhorfendastæði og varamannabekki. Njarðvíkingar tilkynntu því Sláturhúsið sem sinn heimavöll í Evrópukeppninni og munu því bæði Njarðvík og Keflavík leika þar sína heimaleiki í Evrópukeppninni í vetur.
„Að sjálfsögðu voru þetta mikil vonbrigði fyrir alla aðila,“ sagði Valþór Söring, formaður KKD UMFN. „Það hefði verið gaman að fá að leika á heimavelli en strákarnir eru svo sem ekkert ókunnugir Sláturhúsinu og þar er vel búið að mönnum. Ég skil afstöðu sambandsins og var nokkuð viss um að við fengjum höfnun fyrirfram,“ sagði Valþór og bætti við að ef lið ætluðu sér að vera í alþjóðlegum keppnum þá yrði að taka mið af þeim reglum sem væru í gildi.