Íslandsmeistararnir í fantaformi: 18 sigurleikir í röð
Þegar staðan var orðin 10-0 Njarðvíkingum í vil ákvað Friðrik Ragnarsson að taka leikhlé og stappa stálinu í sína menn. Leikhlésræðan gekk ekki betur en svo að Njarðvík leiddi að loknum fyrsta leikhluta 32-10 og fóru svo með stórsigur af hólmi gegn Grindavík í gær 96-78 og sáu Grindvíkingar aldrei til sólar í Ljónagryfjunni gegn einbeittum heimamönnum.
Igor Beljanski fór á kostum í fyrsta leikhluta í gær og gerði 17 stig í leikhlutanum. Fyrir einvígi liðanna var vitað að Grindavík yrði í vandræðum með miðherja Njarðvíkinga. Það varð uppi í gær og lék Igor lausum hala í teig Grindavíkur og þegar þeir gulu reyndu að þétta teiginn fór Igor bara að þriggja stiga línunni og skaut Grindavík í kaf. Yfirburðir Njarðvíkinga voru algerir í fyrsta leikhluta, bæði í vörn og sókn. Fyrstu stig Grindavíkur í fyrsta leikhluta komu þegar tæpar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum.
Staðan 32-10 að loknum fyrsta leikhluta og miðað við framvindu fyrsta leikhluta stefndi allt í risasigur Íslandsmeistaranna. Gestirnir úr Grindavík náðu þó að rífa sig aðeins upp í 2. leikhluta og höfðu þeir 23-25 sigur í leikhlutanum en náðu þar með ekki að saxa neitt að ráði á forskot Njarðvíkinga sem leiddu í hálfleik 55-35.
Engu máli skipti hver kom inn á leikvöllinn í Njarðvíkurliðinu, allir lögðu sín lóð á vogarskálarnar og 11 af 12 leikmönnum Njarðvíkurliðsins komust á blað í gær.
Síðari hálfleikurinn var einvörðungu formsatriði fyrir Njarðvíkinga og kláruðu þeir hann örugglega og lokatölur 96-78 eins og fyrr greinir.
Úr vöndu er að ráða hjá Grindvíkingum. Þeim var komið harkalega niður á jörðina í gær eftir frábæra rimmu gegn Skallagrím. Njarðvíkingar hafa nú unnið 18 leiki í röð og um þessar mundir er vandfundið það lið sem binda mun enda á sigurgöngu Íslandsmeistarannna.
Njarðvíkingar munu nánast örugglega halda áfram að nýta sér yfirburðina í teignum gegn Grindavík og nú reynir verulega á Friðrik Ragnarsson og lærisveina hans sem að undanförnu hafa verið að leika vel með hraðann bolta að vopni. Njarðvíkingum lætur vel báðir leikstílarnir, þ.e. að leika hraðann bolta eða að hægja á leiknum, það sýndu þeir gegn Hamri/Selfoss. Nú þurfa Grindvíkingar að grafa djúpt í vopnabúrið og fá lykilmenn í gang eins og Adam Darboe sem var fjarri sínum besta í Ljónagryfjunni í gær.
Fjórir leikmenn í Njarðvíkurliðinu gerðu 10 stig eða meira í gær og 11 leikmenn komust á blað. Þeirra atkvæðamestur var Igor Beljanski með 24 stig og 5 fráköst en Jóhann Árni Ólafsson átti líka ljómandi dag hjá Njarðvíkingum með 15 stig og 11 fráköst. Stigahæstur í liði Grindavíkur var Páll Axel Vilbergsson með 24 stig.
Næsti leikur liðanna fer fram í Röstinni í Grindavík á morgun, mánudag, og hefst leikurinn kl. 20:00. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst áfram í úrslitarimmuna og mætir annað hvort Snæfell eða KR.