Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Íslandsmeistarar eftir spennuleik
Laugardagur 8. apríl 2006 kl. 15:28

Íslandsmeistarar eftir spennuleik

Haukar eru Íslandsmeistarar kvenna eftir 3-0 sigur á Keflavík í úrslitum Iceland Express deildarinnar. Haukar báru sigurorð af Keflavík á föstudagskvöld 81-77 í þriðja leik liðanna eftir taugatitrandi lokamínútur en þegar sigurinn var í höfn ætlaði allt um koll að keyra að Ásvöllum.

Birna Valgarðsdóttir opnaði leikinn með þriggja stiga körfu fyrir Keflavík og átti hún eftir að kveða sér oftar hljóðs fyrir utan þriggja stiga línuna í leiknum. Meagan Mahoney svaraði strax í næstu sókn og við tók góður kafli Hauka. Í stöðunni 14-11 fyrir Hauka settu heimakonur í fluggírinn og breyttu stöðunni í 31 – 17 á skömmum tíma. Staðan að loknum 1. leikhluta var svo 33-20 Haukum í vil og héldu sumir að stefndi enn á ný í stórsigur Hauka á heimavelli. Það eina sem hélt Keflavík inni í leiknum á þessum tímapunkti voru þriggja stiga skotin að öðrum kosti hefði munur Hauka verið talsvert meiri. Meagan Mahoney var illviðráðanleg og gerði hátt í 20 stig í fyrsta leikhluta.

Haukar gerðu fyrstu stig 2. leikhluta úr þriggja stiga skoti og staðan því 35-20. Í stöðunni 43-29 sögðu fyrrum Íslandsmeistarar Keflavíkur hingað og ekki lengra. Við tók frábær sprettur hjá Keflavík að tilstuðlan Birnu Valgarðsdóttur og Margrétar Köru Sturludóttur og jafnaði Keflavík metin í 43-43 og Ágúst Björgvinsson þjálfari Hauka ekki sáttur við sína leikmenn. Haukar gerðu þó 4 síðustu stig leikhlutans og höfðu yfir í hálfleik 47-43.

Þegar skammt var liðið af 3. leikhluta fékk Helena Sverrisdóttir sína 4. villu í liði Hauka og hafði nokkuð vart um sig eftir það. Vörn Keflavíkur var þétt og áttu Haukar erfitt um vik með að finna leið upp að körfu Keflavíkur og þá voru skot þeirra utan af velli ekki að rata rétta leið. Keflvíkingar höfðu því yfir að loknum 3. leikhluta 59-62.

Fjórði og síðasti leikhlutinn var svo æsispennandi, þegar rétt rúmar 5 mínútur voru til leiksloka var staðan 68-68. Haukar reyndust sterkari næstur mínútur og komust í 79-74 þegar um mínúta var eftir. Lakiste Barkus setti þá niður þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 79-77 þegar 21 sekúnda var til leiksloka. Haukar héldu í sókn og Keflavík náði ekki að brjóta á þeim til að koma þeim á vítalínuna fyrr en 6,8 sekúndur voru til leiksloka. Helena Sverrisdóttir tók þá mikilvægustu vítaskot sín á ferli sínum til þessa og henni brást ekki bogalistin og kom Haukum í 81-77 og Íslandsmeistaratitilinn í höfn þar sem síðustu sekúndurnar runnu út í sandinn eftir að þriggja stiga skot frá Barkus geigaði.

Haukakonur hafa því landað sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í kvennakörfuknattleik og fögnuðu því í samræmi við það.

Meagan Mahoney fór á kostum í liði Hauka og var valin verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar en eftir að hafa tekið á móti þeim verðlaunum hélt hún rakleiðis til Helenu Sverrisdóttur og baða hana um að halda á bikarnum með sér. Meagan gerði 42 stig í leiknum, tók 17 fráköst og stal 8 boltum. Helena gerði 13 stig og tók 16 fráköst.

Hjá Keflavík var Lakiste Barkus með 33 stig og Birna Valgarðsdóttir gerði 19. Margrét Kara Sturludóttir átti prýðisleik hjá Keflavík með 5 stig og 17 fráköst en hún kveiki oft vonarneista hjá Keflavík þegar mest á reyndi.

Tölfræði leiksins

Sjá myndasafn frá leiknum

Víkurfréttamyndir/ Hans
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024