Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ísland leikur við Belga í kvöld
Fimmtudagur 24. júní 2004 kl. 13:48

Ísland leikur við Belga í kvöld

Karlalandsliðið í körfuknattleik mætir því belgíska í Borgarnesi í kvöld í fyrsta leik liðanna af þremur. Á morgun verður leikið í Keflavík og á laugardag í Stykkishólmi.

Belgíska liðið er samansett af atvinnumönnum en er engu að síður ekki það sterkasta sem þeir gætu teflt fram þar sem þeir hvíla sína lykilleikmenn og leyfa yngri mönnum að spreyta sig.

Svipað er uppi á teningnum hjá íslenska liðinu þar sem fjölmargir ungir og efnilegir leikmenn eru að fá sín fyrstu tækifæri með landsliðinu í fjarvistum lykilmanna eins og Loga Gunnarssonar, Damons Johnsonar og Brentons Birminghams sem eru meiddir og auk þess er Jón Arnór Stefánsson vant við látinn með liði sínu Dallas Mavericks í undirbúningnum fyrir næsta tímabil í NBA.

Á blaðamannafundi sem var haldinn í gær sagðist Sigurður Ingimundarson, landsliðsþjálfari, vera ánægður með undirbúninginn og sagði einnig að hann væri að þróa nýtt kerfi í landsliðinu sem hann léti reyna á í leikjunum.
„Við ætlum að nota leikina til að sjá hvar við stöndum gegn sterkari liðum, en okkar markmið er að komast upp um styrkleikaflokk eftir 2 ár. Við erum spenntir fyrir leikina og líst vel á“.

Liðið í kvöld verður skipað eftirtöldum leikmönnum:

- Hlynur Bæringsson - Snæfelli
- Sigurður Þorvaldsson - Snæfelli
- Friðrik Stefánsson - Njarðvík
- Páll Kristinsson - Njarðvík
- Fannar Ólafsson - Keflavík
- Jón N. Hafsteinsson - Keflavík
- Magnús Gunnarsson - Keflavík
- Arnar Freyr Jónsson - Keflavík
- Páll Axel Vilbergsson - Grindavík
- Lárus Jónsson - Hamar
- Helgi Magnússon - Catawba College
- Jakob Sigurðsson - Birmingham Southern

Arnar Freyr og Lárus hafa aldrei leikið landsleik áður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024