Ísak Örn var undraskipting í liði Keflvíkinga
Keflavík mætti Grindavík í Fótbolta.net mótinu í Reykjaneshöllinni í gær. Ísak Örn Þórðarson kom inná sem varamaður hjá Keflavík og skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í 3-1 sigri Keflavíkur. Ísak er enn leikmaður Njarðvíkur en hann hefur verið á reynslu hjá Keflavík og færist alltaf nær og nær Keflavík. Ísak skoraði einnig í fyrsta leik liðsins í mótinu.
Keflavík var með lið í yngri kantinum en þetta var svona blanda af reyndari og yngri leikmönnum. Sem dæmi má nefna að Guðjón Árni Antoníusson, Guðmundur Steinarsson og Magnús Sverrir Þorsteinsson voru ekki með í þessum leik.
Einnig var nett blanda hjá Grindvíkingum en Jósef Kristinn Jósefsson er á reynslu í Búlgaríu og Ólafur Örn Bjarnason hvíldi þennan leik.
Grindvíkingar byrjuðu mun betur í leiknum og skoraði Orri Freyr Hjaltalín á 30. mínútu. Keflavík voru mjög seinir í gang en í seinni hálfleik var þetta nærri einstefna á mark Grindavíkur. Jóhann Birnir Guðmundsson, reynslubolti Keflvíkinga skoraði á 77. mínútu eftir frábæra stoðsendingu Ísaks Arnar sem kom inná sem varamaður. Ísak Örn skoraði svo sjálfur tvö mörk til viðbótar á 83. og 84. Mínútu. Það má segja að þetta hafi verið “súpersub” eins og það er stundum kallað, eða undraskipting.
Hægt er að skoða myndasafn frá leiknum í ljósmyndasafni Víkurfrétta með því að smella hér.
VF-Myndir/siggijóns - [email protected]