Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Miðvikudagur 28. febrúar 2001 kl. 14:38

Íris Edda er Íþróttamaður Keflavíkur 2000

Aðalfundur Íþrótta- og ungmennafélags Keflavíkur var haldinn þriðjudaginn 27. febrúar 2001 á sal Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Á fundinum var lesin upp skýrsla stjórnar og farið yfir fjármál félagsins sem virðast veri í góðu lagi. Að lokum voru veittar viðurkenningar fyrir störf í þágu félagsins og fyrir framúrskarandi árangur í hinum ýmsu íþróttagreinum. Það var Íris Edda Heimisdóttir, sundkona sem var valin íþróttamaður Keflavíkur árið 2000 en hún hlaut titilinn einnig á síðasta ári enda mikil íþróttakona.
Afreksfólk Keflavíkur
Guðmundur Steinarsson hlaut titilinn knattspyrnumaður Keflavíkur en hann spilaði mjög vel fyrir Keflavík í sumar. Var hann annar tveggja markahæstu manna íslandsmótsins.
Erla Þorsteinsdóttir var valin körfuknattleiksmaður Keflavíkur en hún var besti leikmaður kvennaliðs Keflavíkur í körfubolta leiktíðina 1999-2000.
Fimleikamaður Keflavíkur er Heiðrún Rós Þórðardóttir en hún hefur æft fimleika frá 5 ára aldri og ávallt staðið sig mjög vel.
Sundmaður Keflavíkur er Íris Edda Heimisdóttir en hún tók þátt í fjölda móta bæði innanlands og utan á árinu og stóð sig ávallt vel. Hún var einnig yngsti íslenski þáttakandinn á Ólympíuleikunum í Sidney.
Ólafur Jón Jónsson er badmintonmaður ársins 2000 en hann vann til fjölda verðlauna á árinu og er vaxandi íþróttamaður.
Keilumaður Keflavíkur er Eiríkur A. Björgvinsson en hann varð Íslandsmeistari í 2. flokki drengja og Meistaramótsmeistari 2. flokks drengja.
Árni Leifsson er skotmaður Keflavíkur en hann hefur stundað æfingar af miklum krafti síðastliðin tvö ár.

Duglegt fólk
Ungmennafélag Íslands veitir völdum einstaklingum starfsmerki UMFÍ fyrir óeigingjarnt starf í þágu íþrótta. Hildur Kristjánsdóttir fékk starfsmerki UMFÍ að þessu sinni. Einar Haraldsson, framkvæmdastjóri Keflavíkur, sagði í ræðu sinni að Hildur væri ósérhlífin en hún hefur setið í hinum ýmsu nefndum á vegum Keflavíkur um árabil og tekið virkan þátt í félagsstarfinu.
Bronsmerki Keflavíkur er veitt fyrir 5 ára stjórnarsetu en það fengu Þórður Magni Kjartansson aðalstjórn, Grétar Ólafsson knattspyrnudeild, Þorgrímur St. Árnason körfuknattleiksdeild, Árni Pálsson skotdeild, Ingiber Óskarsson keiludeild, Ólafur Örn Ingibergsson fimleikadeild og Ólöf Sveinsdóttir fimleikadeild.

Sigurður hlaut starfsbikarinn
Starfsbikarinn var veittur í annað sinn en Erla Sveinsdóttir hlaut bikarinn í fyrra. Sigurður Valgeirsson fékk bikarinn í ár en hann er veittur til þess félagsmanns sem skilað hefur miklu starfi í þágu félagsins. Sigurður hefur verið viðloðandi íþróttir síðan 1972 og er enn að.
Hann hóf afskipti af körfubolta 1972 var leikmaður, formaður og gjaldkeri eða hvort tveggja í 13 ár. Hann sat í stjórn íþróttabandalags Keflavíkur í 20 ár og gegni þar hinum ýmsu störfum svo sem unglingaráði í knattspyrnu og frjálsíþróttaráði. Hann hefur séð um að skrá tölfræðina í körfuknattleik síðan 1972 og til dagsins í dag og er leitað til hans ef mönnum vantar upplýsingar varðandi körfuknattleik. Hann hefur fylgt karla liði Keflavíkur frá 1972 og gerir en og einnig hefur hann fylgt kvennaliði Keflavíkur í mörg ár. Hann hefur unnið alveg ómetanlegt starf í þágu körfuknattleiksins á Íslandi

Á fundinum lagði félagið fram ályktun þar sem fullum stuðningi var lýst yfir við samþykkt stjórnarfundar UMFÍ um að hafna sameiningarviðræðum við ÍSÍ en þetta mál hefur verið mjög umdeilt og sum félög hafa lýst yfir vantrausti á stjórn UMFÍ vegna málsins.
„Í svo stóru máli hlýtur það að vera sambandsþing UMFÍ sem ákveður hvort hafnar verði sameiningarviðræður eða ekki. Fyrir liggur samþykkt sambandsráðsfundar UMFÍ sl.haust um að farsælast sé að UMFÍ starfi áfram í óbreyttri mynd. Aðalfundur Keflavíkur íþrótta- og ungmennafélags telur að eftir þeirri samþykkt beri stjórn UMFÍ að vinna. Keflavík íþrótta- og ungmennafélag lýsir yfir fullu trausti á stjórn UMFÍ“, segir orðrétt í ályktuninni.




Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024