Írena Líf synti tvöfalt Viðeyjarsund

Írena Líf Jónsdóttir, 17 ára stúlka úr Reykjanesbæ, vann mikið afrek þegar hún synti tvöfalt Viðeyjarsund í gærkvöldi. Fyrst synti hún út í eyjuna þar sem hún fékk sér hressingu, án þess að stíga á land, og síðan aftur til lands. Hún kom að landi laust fyrir miðnætti, og hafði þá verið í þrjár klukkustundir á sundi.

Írena synti Viðeyjarsundið einnig á síðasta ári og var þá yngsta sundkona landsins til þess að þreyta það sund. Írena er efnileg í sjósundinu en ekki skemmir fyria að hún hefur æft sund frá blautu barnsbeini og yfirferðin á henni í sjónum er mikil.

Frá þessu er greint á vefsíðunni sjósund.is.