ÍRB sópuðu að sér verðlaunum
ÍRB landaði þremur titlum á lokadegi ÍM 50, eða Íslandsmeistaramótinu í sundi í 50 metra laug sem fram fór um helgina. Baldvin Sigmarsson sigraði í 400m fjórsundi, Kristófer Sigurðsson í 200m skriðsundi og Þröstur Bjarnason í 800m skriðsundi. ÍRB voru að venju sigursæl á mótinu en aðrir sem unnu til verðlauna voru: Eydís Ósk Kolbeinsdóttir brons í 400m fjórsundi og silfur í 800m skriðsundi, Sunneva Dögg Friðriksdóttir silfur í 200m skriðsundi á nýju ÍRB meti og Karen Mist Arngeirsdóttir brons í 200m bringusundi.
Boðsundsveitir ÍRB voru líka í verðlaunasætum, kvennasveitin vann til bronsverðlauna, örstutt frá gildandi íslandsmet í stúlknaflokki, Sunneva Dögg Friðriksdóttir, Eydís Ósk Kolbeinsdóttir, Stefanía Sigurþórsdóttir og Karen Mist Arngeirsdóttir. Karlasveitin vann síðan til silfurverðlauna en hana skipuðu, Kristófer Sigurðsson, Þröstur Bjarnason, Baldvin Sigmarsson og Ingi Þór Ólafsson.
Sannarlega frábær árangur hjá ÍRB. Þröstur Bjarnason var samtals með þrjá titla, 400, 800 og 1500m skriðsundi og ÍRB met í 1500 og 800. Baldvin Sigmarsson vann tvo titla, 200m flugsund og 400m fjórsund. Eydís Ósk Kolbeinsdóttir var með einn titil í 1500m skriðsundi. Kristófer Sigurðsson vann einn titil í 200m skriðsundi og Sunneva Dögg Friðriksdóttir einn titil í 400m skriðsundi með ÍRB met og Íslandsmet í stúlknaflokki og örskammt frá Íslandsmetinu í opnum flokki. Jafnframt setti blandaða boðsundsveitin í 4 x 50m skriðsundi nýtt ÍRB met. Sunneva Dögg Friðriksdóttir bætti við sig lágmörkum á EMU og Stefanía Sigurþórsdóttir náði lágmörkum á NÆM.